140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið samþykkt einróma í ríkisstjórn og vísað til þingflokkanna og þar hefur það verið staðfest og er komið hingað til þingsins. Ég geri ráð fyrir því að einstakir þingmenn geri athugasemdir við einstök atriði í þessari þingsályktunartillögu og vilji ná fram einhverjum breytingum á því. Það er bara eins og gerist og gengur.

Málið fer sína leið í þinginu og fær efnislega meðferð en ég geri ráð fyrir að þegar menn skoða þessa þingsályktunartillögu í heild sinni muni þeir sjá þá miklu kosti sem eru á þeim breytingum sem hér eru gerðar, ekki síst varðandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og auðlinda- og umhverfisráðuneyti, þannig að ég á von á því að þetta mál hafi meirihlutastuðning og þá er ég að tala um út fyrir raðir stjórnarflokkanna. Mér finnst málið liggja þannig að ég hef fulla trú á því að það hafi meirihlutastuðning í þinginu.