140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að það að færa verkefni milli ráðuneyta kemur ekki í veg fyrir að skaffa þurfi fjármuni með verkefnunum. Sá rökstuðningur hjá hæstv. forsætisráðherra að starfsmenn yrðu nánast til úr loftinu þegar efnahagsmál væru færð yfir í fjármálaráðuneytið en ekki þyrfti að skaffa starfsmenn til að sinna þeim verkefnum var illskiljanlegur. Allur sá rökstuðningur er algjörlega fráleitur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í stöðu þessa máls. Hæstv. forsætisráðherra upplýsir að þetta sé stjórnartillaga. Mig langar að spyrja hv. þingmenn í ljósi sögu málsins og í ljósi þess að hér er verið að snúa baki við stjórnarsáttmálanum: Telur hv. þingmaður að stjórnarflokkarnir í heild sinni, þeir þingmenn sem styðja ríkisstjórnina, standi að baki því að koma málinu í gegn án þess að þeir þurfi að leita út fyrir raðir stjórnarflokkanna?