140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom hvorki fram í ræðu þingmannsins né andsvarinu áðan af hverju hann teldi að unnið væri að þessu verkefni núna. Ég ítreka því þá spurningu og vil líka snúa henni yfir á hin ráðuneytin sem hv. þingmaður telur reyndar að sé í lagi að breyta. Þar er ég á öndverðri skoðun við hann og vildi velta því upp af hverju við erum að breyta þessu núna þegar við erum að fara inn í lok kjörtímabilsins. Hvaða krafa gerir það að verkum að það þurfi að breyta þessu? Það er gríðarleg andstaða við þetta og ég tek undir að það sé óþarfi að skapa togstreitu og rifrildi um nánast hvern hlut eins og í hagstjórninni en það gildir líka þegar kemur að þessum mikilvægu atvinnugreinum okkar og auðlindanýtingu af því að landið okkar byggir fyrst og fremst á auðlindanýtingu. Er þetta form á ráðuneytaskipan sem við erum að taka upp hér ekki ættað úr öðru umhverfi? Er þetta til dæmis svona í Færeyjum, á Grænlandi og í Kanada svo dæmi séu nefnd (Forseti hringir.) eða erum við að taka hér upp einhverja aðra stefnu?