140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg ágæta ræðu. Þegar við ræddum skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og lögin um Stjórnarráðið gengu upphaflegu hugmyndirnar út á það að forsætisráðherra gat breytt þessu nánast á ríkisstjórnarfundi og án þess að spyrja kóng eða prest. Það fékkst í þeirri umræðu að leggja skyldi fram þingsályktunartillögu á Alþingi og við erum einmitt að ræða hana. Hvernig liti þetta út ef það hefði ekki fengist fram, ef ekki hefði verið sett inn þetta ákvæði um að samþykkja þyrfti tillögu til þingsályktunar um þá breytingu? Þá hefði ræða hv. þingmanns ekki hljómað hér og viðvaranir hans og þessi umræða hér hefði ekki átt sér stað og það væri búið að breyta þessu. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er það ekki allt of mikið valdaframsal til ríkisstjórnar, jafnvel með þessari þingsályktunartillögu, að ríkisstjórnin hafi sjálfdæmi eða sé frjálst að breyta ráðuneytum og, eins og hv. þingmaður nefndi, sérstaklega í lok kjörtímabils?

Svo stendur á síðu 5 í greinargerð með tillögunni að það eigi að koma, með leyfi forseta: „… sem mótvægi við sterkt ráðuneyti fjármála- og efnahags, til viðbótar við ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál þar sem aðrir ráðherrar koma að borðinu, er til skoðunar að koma á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga, …“

Það er sem sagt verið að bæta við enn einni stofnuninni sem á að sjá um efnahagsmál og jafnframt er verið að setja þetta allt í einn pott. Hvað segir hv. þingmaður um þessar hugmyndir og hvers getum við vænst frá þessari ríkisstjórn? Og ég vil spyrja hv. þingmann: Var þessi þingsályktunartillaga samþykkt í þingflokki Samfylkingarinnar og var fyrra frumvarpið samþykkt þar líka?