140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var að sjálfsögðu það sem var nákvæmlega skoðað, það voru kostir og gallar þess að halda sig við óbreytt skipulag og vera með níu ráðuneyti og vera með efnahags- og viðskiptaráðuneyti áfram starfandi í svipaðri mynd eða fara þessa leið, að leggja þetta með ríkisfjármálunum og fara að minnsta kosti í þeim skilningi hina norrænu eða norsku leið og hafa Seðlabankann þar með.

Það er með mismunandi hætti, það er reyndar alveg rétt, hvernig fjármálaþjónustan sem atvinnustarfsemi er meðhöndluð og eftirlitinu eða fjármálastöðugleikanum er fyrir komið. Allt er þetta í deiglu víða um lönd þannig að það er ekki eins og menn telji sig hafa fundið hið fullkomna fyrirkomulag í þessum efnum enda reynsla undangenginna ára í vestrænum hagkerfum ekki beinlínis þannig að það ætti að hræða menn frá því að þora að skoða nýtt fyrirkomulag.

Gallarnir við það meðal annars, ég fór yfir það í ræðu minni, sem menn stóðu frammi fyrir voru þeir að það hefði væntanlega kostað umtalsverða fjármuni að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið og hefði það þó áfram verið langminnsta einingin innan Stjórnarráðsins eftir að iðnaðarráðuneytið væri sameinað nýju atvinnuvegaráðuneyti. Það væri til dæmis augljós ókostur, sömuleiðis það mat manna að það veikti fjármálaráðuneytið að hafa ekki meiri burði og getu á sviði efnahagsmála eins og það áður hafði.