140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fyrrverandi ráðherra og þingmaður á bara þessi stóru orð sín og best er að hann standi betur fyrir því hvaða innstæður eru á bak við þau.

Fjármálamarkaðurinn er á einum stað, vátryggingastarfsemi, Samkeppniseftirlit og aðrir slíkir þættir sem allir eru nátengdir. Það er heldur ekki einfalt að taka fjármálaþjónustuna sem slíka eina burtu og skilja hitt eftir annars staðar. Einhvers staðar þarf að draga upp svona landamæri og ég tel að þau séu dregin upp með tiltölulega hreinum hætti hér, að ríkisfjármál og efnahagsmál, peningamálastefna og Seðlabanki tilheyri þá þessu móðurráðuneyti sem beri yfirábyrgð á ríkisfjármálum og efnahagsmálum og samræmingu hagstjórnar en öflugt ráðuneyti atvinnumála og nýsköpunar fari með fjármálaþjónustu, vátryggingastarfsemi og aðra slíka þætti sem og atvinnustarfsemi í landinu og hafi eftirlit með þeim þar sem fjármálaeftirlit, samkeppniseftirlit og slíkir þættir séu til staðar.

Auðvitað gæti komið til greina að gera ýmsar breytingar í viðbót. Til dæmis gætu verkefni frá innanríkisráðuneytinu átt erindi til atvinnuvegaráðuneytisins o.s.frv. Það er því ekki víst að endanlegur forsetaúrskurður um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins eigi að einskorðast við málaflokka (Forseti hringir.) sem falla undir þau ráðuneyti sem hér er verið að tala um.