140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ég vil segja það í upphafi ræðu minnar að það er mjög sérkennilegt hvernig þetta mál ber að og kemur inn í þingið. Ég hef verið að velta því fyrir mér, eftir að hafa hlustað á umræðuna í dag, hver sé í raun tilgangurinn og markmiðið með þessari tillögu um breytingar á Stjórnarráðinu. Ég er ekki farinn að átta mig á því enn þá, því að tillagan er afskaplega rýr í roðinu og enginn rökstuðningur kemur fram fyrir því hvers vegna sé skynsamlegt að fara þessa leið.

Það kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, þegar hann hélt ræðu sína, að þetta væri algjör U-beygja af hálfu ríkisstjórnarinnar, og það má eiginlega segja að hún hafi gefist upp á því verkefni að ná utan um sameiginlega og samstillta hagstjórn.

Það rifjaðist upp fyrir mér, virðulegi forseti, eftir að hafa hlustað hér á umræðuna, hvernig staðið var að ráðherrabreytingunum um síðustu áramót. Forustumenn ríkisstjórnarinnar voru búnir að bíða mjög lengi eftir tækifæri til að losna við fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þegar sú staða kom síðan upp að gerð var atlaga að þeim ráðherra af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar, virðist það hafa verið þannig að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi kannski ekki getað komið því í gegnum þingflokkinn eða í gegnum baklandið hjá sér nema með því að taka einn ráðherra Samfylkingarinnar með. Það er kannski ástæðan fyrir því að þessi þingsályktunartillaga er komin fram. Hana ber að með þeim hætti að maður skilur hvorki upp né niður í þessu. Ef maður rifjar upp þennan farsa sem var hreint með ólíkindum þá hefur maður einhvern veginn á tilfinningunni að til að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hafði verið helsta verkefni forustumanna ríkisstjórnarinnar um langt bil, hafi niðurstaðan orðið, sem ákveðinn fórnarkostnaður, að það yrði að taka einn hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar með. Þá hafi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra verið látinn fjúka því að hann hafði unnið þannig í sínum málum og verið sá ráðherra sem hafði kannski eitthvert samráð við stjórnarandstöðuna á þinginu, til að mynda um þá breytingu sem varð á meðferð Icesave-málsins eftir að það fór inn í svokallaða dómstólaleið. Hann hafði auðvitað unnið þvert gegn stefnu ríkisstjórnarinnar með því að hafa samráð við stjórnarandstöðuna og samráð við þingið. Það var alveg klárt og blasir við hverjum sem er að það gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar.

Síðan vil ég vitna í orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar, en hann fór mjög vandlega yfir þetta mál í ræðu sinni í dag og þar hélt hann því fram að það væri algjörlega óunnið og vanreifað og órökstutt hvers vegna ætti að fara í þessa vegferð. Ég tek heils hugar undir það .

Það gefur augaleið að miðað við fyrri stefnu ríkisstjórnarinnar og fyrri yfirlýsingar er það algjör U-beygja af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara þá leið að skipta aftur upp efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í atvinnuvegaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, og búa til nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti og skipta aftur upp. Það er búið að fara yfir þann hringlandahátt, og ég ætla svo sem ekki að eyða miklum tíma í að ræða það, að gera þetta núna. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. september 2012 eða sex til sjö mánuðum fyrir kosningar. Það sjá allir hvers konar vinnubrögð þetta eru. Það að ekki skuli hafa verið haft neitt samráð við stjórnarandstöðuna þegar farið var í þessa vegferð segir kannski allt um þau vinnubrögð sem fylgja þessari ákvarðanatöku forustumanna hæstv. ríkisstjórnar.

Mig langar að fara aðeins yfir það sem mér finnst athugavert við þetta og taka á þetta nýjan vinkil sem lítið hefur verið ræddur, þ.e. fullyrðingar um sparnaðinn sem hljótist af þessum sameiningum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég gef nú ekki mikið fyrir þær. Í fyrsta lagi fylgir engin kostnaðargreining eða kostnaðarmat þessari þingsályktunartillögu þó svo að hæstv. ráðherra hafi haldið því fram í umræðunni í dag að til sé ógrynni af gögnum og möppum sem styðji að af þessu muni hljótast sparnaður. Það er þá mjög sérkennilegt að slíkt mat fylgi ekki greinargerð með tillögunni, í henni er einungis eða að stærstum hluta farið yfir reynsluna af nýafstaðinni sameiningu á annars vegar innanríkisráðuneytinu og hins vegar velferðarráðuneytinu sem fór fram fyrir ekki svo löngu síðan. Ákveðnar fullyrðingar koma hér fram um að það hafi gengið vel og mikið hafi sparast, en því miður er það ekki alveg rétt.

Mig langar að fara aðeins yfir tölulegar staðreyndir sem lágu ekki fyrir þegar menn fóru yfir þetta. Röksemdirnar voru að það þyrfti að spara. Stjórnarráðið þyrfti að sýna gott fordæmi og taka til í eigin ranni áður en gerðar væru kröfur um skerðingu hjá öðrum stofnunum í þjóðfélaginu. Hvernig var nú staðið að þeim breytingum sem fylgdu sameiningunni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar? Ég er hér eingöngu að tala um húsnæðiskostnað, því alltaf er talað um að sagt verði upp einum bílstjóra og síðan sparist ein ráðherralaun á milli þingmanns og ráðherra sem er ekki há upphæð. Upprunalegar áætlanir gerðu ráð fyrir að breytingarnar mundu kosta 160 millj. kr. Síðan er mjög merkilegt og er náttúrlega í takti við það hvernig framkvæmdarvaldið hefur unnið og vinnur enn þann dag í dag, að kostnaðaráætlunin var endurskoðuð og alltaf var leitað samþykkis forsætisráðuneytisins fyrir þeim breytingum sem áttu að verða. Niðurstaðan var sú að þegar kostnaðarmatið var klárað var niðurstaðan ekki 160 milljónir heldur 210 milljónir sem þýddi að hér voru samþykktar í fjáraukalögum 2011 þær 50 millj. kr. sem vantaði upp á. Síðan þegar dæmið var endanlega gert upp kom í ljós að það sem átti upphaflega að kosta 160 millj. kr., kostaði 243 millj. kr. Maður verður því að taka varlega þeim fullyrðingum sem heyrast í þessum undirbúningi.

Það er mjög merkilegt að skoða hvar raunverulega var farið fram úr kostnaðaráætlun við breytingarnar sem voru gerðar síðast í Stjórnarráðinu. Ég ætla að nefna dæmi um húsnæðis- og flutningskostnað sem fylgdi breytingunum, en það var talað um að undirbúningurinn væri svo vandaður, þetta væri svo vandað ferli. Til dæmis var gert ráð fyrir því í einni framkvæmdinni að kostnaður við hana væri um 60 millj. kr. Niðurstaðan var hins vegar sú að hún kostaði 50 milljónir, þ.e. 10 millj. kr. minna. En hins vegar er athyglisvert að sjá að gert var ráð fyrir því að kostnaðurinn vegna ráðgjafar við þessar breytingar væri 2 milljónir en varð síðan 5,7 milljónir. Síðan var kostnaður við umsjón og eftirlit áætlaður 2 milljónir, en raunin varð 7,7 milljónir sem er ekki nema 284% fram úr áætlun.

Það er mjög merkilegt að þegar maður rýnir í þessar tölur að framkvæmdin sem slík og kostnaður við breytingar og lagfæringar á húsnæðinu skuli vera um 20% undir áætlun, en þeir liðir sem ég taldi upp, umsjón og eftirlit og ráðgjöf við framkvæmdina, skuli fara fram úr um 300%. Hið sama er að segja um annað dæmi sem ég gæti farið yfir. Þær fullyrðingar sem heyrast og heyrðust á sínum tíma um þær breytingar sem þá áttu sér stað og kostnaðinn og sparnaðinn sem af þeim mundi hljótast — oft og tíðum er engin innstæða fyrir þeim röksemdafærslum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að fara mjög efnislega í þau atriði sem búið er að fara mjög vel yfir í dag. En í þessa þingsályktunartillögu vantar allan rökstuðning fyrir því hvers vegna fara eigi í þessa vegferð. Það vantar þá greiningu. Menn hafa rætt um það í ár, ef ekki áratugi, að stofna svokallað atvinnuvegaráðuneyti og búið að gera fullt af greiningum um það hvernig eigi að standa að því. En fyrir þeirri leið sem fara á hér, eins og bent var á í ræðu fyrr í dag, það er akkúrat ekki til greining á þeirri aðferðafræði í Stjórnarráðinu. Það er mjög merkilegt að ekki sé búið að greina þá leið sem einmitt á að fara. Enn og aftur er hér um að ræða mál ríkisstjórnarinnar sem er vanreifað og illa undirbúið og réttast væri að vísa því frá og taka það frekar til umræðu í haust þegar fyrir liggur úttekt á þeirri leið sem hér er lögð til.