140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að þetta er nokkuð sem við ættum að ræða á þessum nótum. Hv. þingmaður bendir á að við gætum alveg eins sett fjármunina beint í holræsið þegar um er að ræða þessar endalausu breytingar á húsnæði. Þetta er ekkert annað en blóðpeningar. Það er allra handa sokkinn kostnaður þegar Fasteignir ríkissjóðs sitja uppi með tómar húseignir sem þarf að borga leigu af. Ég veit ekki hvort það er tekið inn í þetta allt saman.

Mikil umræða spannst um húsnæði fyrir landlækni. Þar sameinuðu menn í nafni hagræðingar en stóðu uppi með stóraukinn kostnað af því að menn voru með langtíma leigusamning á húsnæði sem stóð síðan lengi autt og núna var komin einhver önnur starfsemi þangað, sem ég man ekki alveg hver var, sem væntanlega hefði farið í hagkvæmari leigu ef ekki hefði komið til þessi sameining sem skilar sér ekki í hagræðingu og augljóslega ekki í betri þjónustu. Það er annað mál.

Ég er alveg sammála því að mjög margt gott starfsfólk er í ráðuneytunum. Almennt held ég að embættismenn okkar séu góðir en þegar við erum að tala um hvað hið opinbera hefur stækkað er ég ekki viss um að það eigi svo mikið við um ráðuneytin, það á frekar við um undirstofnanirnar og það hefur farið svolítið undir radar. Menn ættu að tala hreinskilnislega um hvaða áhrif þær vinnuaðstæður sem fólk er í hefur á það og ég held að það sé engum hollt, alveg sama hver það er, að vera í sömu stöðunni mjög lengi. Ef fólki líður ekki vel í vinnu kemur það niður á störfum þess og þegar fólk hefur færst á milli starfa hef ég séð dæmi þess að það hefur endurnýjast og gert gríðarlega góða hluti. Ég er þess vegna mjög áhugasamur um að við ræðum þann hlut sérstaklega, en tek sömuleiðis undir (Forseti hringir.) þær góðu ábendingar sem hv. þingmaður var með áðan.