140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur tekið þátt í umræðum um Stjórnarráðið á þessu kjörtímabili og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhvern tíma heyrt þá hugmynd að setja bankana yfir í atvinnuvegaráðuneyti. Hefur það einhvern tíma komið upp? Við höfum rætt þetta hér svo dögum skiptir.

Ég man að fyrir nokkrum vikum talaði hæstv. allsherjarráðherra Steingrímur J. Sigfússon sérstaklega um mikilvægi þess að sameina FME og Seðlabankann. Ég er að leita, virðulegi forseti, — vegna þess að ég man þetta ekki og hef þó tekið þátt í þessari umræðu — að þeim hv. þingmanni sem hefur einhvern tíma heyrt þessa hugmynd áður, áður en hún kom fram á þessum þunna pappír af Alþýðublaðsstærðinni, á þingsályktunartillögunni í dag. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hann heyrt þetta áður?