140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að hvetja þingmenn, þó að sjálfsögðu sérstaklega þingmenn stjórnarliðsins, til að reyna að hafa hemil á hæstv. utanríkisráðherra sem er búinn að sýna hvað eftir annað ótrúlega undarleg viðbrögð þegar Evrópusambandið hefur séð ástæðu til að fara í deilur við Íslendinga. Það keyrði um þverbak í dag og í gær þegar hæstv. utanríkisráðherra festist í því sem er því miður allt of algengt hjá hæstv. ráðherra, tómu skítkasti, útúrsnúningum og skætingi, í stað þess að svara spurningum um þetta mikla hagsmunamál. Í stað þess að ræða af fullri alvöru hvernig rétt sé að bregðast við þeirri ákvörðun Evrópusambandsins að ráðast í málaferli gegn Íslendingum ræðst hæstv. ráðherra á þingmenn og snýr út úr málinu á allan mögulegan hátt.

Nú hefur verið upplýst í fréttum að hæstv. ráðherra hafi formlega látið mótmæla ákvörðun Evrópusambandsins. Þetta virðist hins vegar vera mjög viðkvæmt mál og mátti ekkert ræða. Við báðum sérstaklega um leyfi til að fá að ræða þetta mál undir lok fundar í utanríkismálanefnd í gær en það stóð mjög á því og svo þegar hæstv. ráðherra las um þetta í fréttum brást hann hinn versti við, réðst á framsóknarmenn og sakaði þá um að leka leynilegum upplýsingum. Það mátti sem sagt ekki fréttast að hæstv. ráðherra hefði mótmælt við Evrópusambandið. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra sakar framsóknarmenn um að leka upplýsingum í Icesave-málinu. Hann hefur áður verið staðinn að því að gera það ranglega. En núna mátti sem sagt ekki segja frá því að hæstv. ráðherra hefði mótmælt við Evrópusambandið.

Hvers vegna er það leynilegt að hæstv. ráðherra hafi gert athugasemdir við Evrópusambandið? (Forseti hringir.) Og hvernig fóru þessar athugasemdir fram? Af fréttum mátti helst ráða að þetta hefði gerst í einhverju bílastæðahúsi eða að menn hefðu setið (Forseti hringir.) á bekk meðan þeir gáfu dúfunum og ræddu þessar athugasemdir. Ég krefst þess (Forseti hringir.) að þingmenn fari að veita ráðherranum aðhald eins og þinginu ber.