140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil trúa því að það sé mikill skilningur hjá hv. þingmönnum á því að við þurfum að leysa úr skuldamálum heimila og fyrirtækja. Ég held að allir séu sammála um það. Menn eru sammála um að verkefnin séu kannski ekki einföld en menn eru sammála um að þeim þurfi að sinna.

Eins og við vitum féll gengislánadómur um miðjan febrúar sl. Ég hef fylgst nokkuð með því síðan hvernig hefur gengið að reikna út eftir honum. Ég vona að það sé bara eitthvert sérstakt ástand hjá þeim fjölmörgu sem hafa haft samband við mig en ég er ansi hræddur um að svo sé ekki og þá vil ég upplýsa þingheim um það, og það er stórmál, að það er ekkert að gerast í þessum málum. Það eru ekki komnar neinar niðurstöður hjá fólki eða fyrirtækjum um nýja endurreikninga. Það sem meira er, virðulegi forseti, skilaboðin frá fjármálastofnunum eru þau að ekki eru gefin nein tímamörk um það hvenær þetta verði klárað. Og þetta er kannski það sem hefur gengið best varðandi það sem hefur gerst í kjölfar gengislánadómanna. Þá er ég að vísa til þess að þar hafa leiðréttingarnar komið fram. Það breytir því hins vegar ekki að þar er enn þá stór vandi á ferðinni. Það er alveg ljóst að þessi nýi dómur getur leyst úr vanda margra, en við hljótum að gera þá kröfu til lánafyrirtækjanna sem meðal annars eru í eigu skattgreiðenda, sérstaklega Landsbankinn og aðrar stofnanir að hluta til, (Forseti hringir.) að það sé unnið hraðar í þessum málum, í það minnsta gefin skýrari svör. Og ég hvet hv. þingmenn, sama hvar þeir eru, að láta sig þetta mál varða (Forseti hringir.) því að ég ætla að við séum sammála um að svona megi þetta ekki vera.