140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál að í það minnsta tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins styðja ekki þessa þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra. Það eru hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Árni Páll Árnason. Báðir þessir þingmenn voru ráðherrar í ríkisstjórninni og var viss ánægja með ákveðna þætti um hvernig þeir héldu á ákveðnum málaflokkum í ráðuneytum sínum. Í fyrsta lagi var það Árni Páll Árnason sem gætti góðs samráðs varðandi málaferlin um Icesave-málið og átti samráð þar við stjórnarandstöðuna sem núverandi hæstv. utanríkisráðherra, sem tók við því máli, hefur sýnt að hann er ekki fær um.

Síðan er það hv. þm. Jón Bjarnason sem hafði gott samráð varðandi ESB-málið og var ekki tilbúinn til þess að taka þátt í aðlögun ríkisstjórnarinnar að Evrópusambandinu. Þessir tveir ráðherrar gagnrýna mjög þetta mál.

Það er alveg klárt, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að þingsályktunartillagan er að auka völd embættismannanna og er að gera valdapíramídann skarpari þannig að þeir sem sitja á toppnum, það eru þá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ráðherra sem er með öll hin ráðuneytin, völd þeirra munu aukast mjög.

Þá hlýtur maður að spyrja og mig langar að velta því upp við hv. þingmann: Í ljósi þess að tveir ráðherrar eru farnir úr ríkisstjórninni og styðja ekki málið — kann ekki að vera að forustumenn ríkisstjórnarinnar séu að verða kannski fulleinangraðir frá þjóðinni og skoðunum þjóðarinnar í þessu máli og öðrum? Önnur spurningin væri: Hvað heldur hv. þingmaður, án þess að ég sé að biðja hann um að seilast inn í hugarheim hæstvirtra ráðherra, að vaki fyrir forustumönnum ríkisstjórnarinnar að vilja auka völd embættismannakerfisins og gera valdapíramídann skarpari í stað þess að gera hið gagnstæða sem krafan er um (Forseti hringir.) í íslensku samfélagi í dag?