140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er augljóst, auðvitað hefur átt sér stað gríðarlega mikil nýsköpun í atvinnulífinu, í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi. Stofnanasamsetning í þessum atvinnugreinum og hjá stjórnvöldum hefur ekki staðið í vegi fyrir því að mínu mati.

Það sem er hins vegar mjög fróðlegt að velta fyrir sér núna er staða þessa máls í pólitísku samhengi. Þegar hæstv. forsætisráðherra hafði mælt fyrir þessari tillögu spurði ég í andsvörum hvort fyrir lægi afdráttarlaus stuðningur stjórnarliða við málið. Ég nefndi í því sambandi sérstaklega hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur sett fram miklar athugasemdir og fyrirvara um boðaðar fyrirætlanir. Hæstv. ráðherra svaraði þannig að hún teldi fullvíst að málið hefði meiri hluta á Alþingi.

Nú liggur fyrir að tveir úr þingliði stjórnarflokkanna, í rauninni þeir einu tveir sem hafa tjáð sig um málið yfir höfuð fyrir utan þá sem sitja á ráðherrabekkjunum, hafa lýst yfir andstöðu við málið. Þá þurfum við ekki að kunna mikið fyrir okkur í frádrætti til að átta okkur á stöðu ríkisstjórnarinnar nema auðvitað það eigi að sækja fylgi við þetta mál út fyrir ríkisstjórnarflokkana eins og hæstv. forsætisráðherra ýjaði að í andsvari við mig hér í gær. Við vitum ekki hvað liggur að baki. Liggur til að mynda fyrir mögulegur stuðningur frá einstökum þingmönnum úr stjórnarandstöðunni? Eða verður það þannig eins og við höfum séð oft að það verður farið að „víla og díla“ með málin? Er hugsanlegt að þegar þessi þingsályktunartillaga kemur til meðhöndlunar í þingnefnd verði farið að semja um einstaka þætti? Er það kannski skýringin á því að hæstv. forsætisráðherra, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafa ekki viljað svara einstökum efnisatriðum? Er verið að halda þessu öllu saman opnu vegna þess að menn ætla að hafa möguleika á að semja sig í gegnum málið til að koma tryggja málinu framgang (Forseti hringir.) hér á Alþingi?