140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það er okkur Íslendingum mikið keppikefli að lánshæfismat landsins verði sem best, það bætir að sjálfsögðu kjör okkar. Ég held að framkvæmdaáætlun sem hafi einhvern trúverðugleika sé mjög mikilvæg.

Ég verð að segja eins og er við hv. þingmann að eins og andrúmsloftið er hjá stjórnvöldum í dag, með þá flokka sem nú eru í ríkisstjórn, tel ég betra að setja ekki fram framkvæmdaáætlun. Það mundi enginn taka mark á þeirri áætlun. Það yrði einskis nýtt plagg. Flokkum sem hafa talað um þjóðnýtingu fyrirtækja í orkugeiranum, fylgja því svo ekki eftir með nokkrum einasta hætti, er vitanlega ekki treystandi til að setja fram áætlanir sem þessar, það er bara þannig.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt fyrir efnahagslíf okkar að setja fram trúverðuga áætlun. (Forseti hringir.) En menn verða þá að hafa trú á því að við hana verði staðið.