140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:26]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé stærri og róttækari aðgerð og róttækara inngrip í þetta ferli allt saman að setja virkjun annaðhvort í nýtingarflokk eða í verndarflokk en í biðflokk þar sem á eftir að meta hvort hún fer í nýtingarflokk eða verndarflokk. Er hann mér sammála um að það sé mun róttækari stærri aðgerð?

Hér talar fólk um gríðarleg skemmdarverk þegar hlustað er lögum samkvæmt á alvarlegar ábendingar í umsögnum um að það vanti upplýsingar um tiltekna þætti og að þess vegna eigi svæðin að fara í biðflokk. Þetta er í anda þeirra laga sem hér voru samþykkt af öllum flokkum ef ég þekki rétt. Þess vegna langar mig að fá sýn hv. þingmanns á nákvæmlega þetta. (Forseti hringir.) Mín persónulega skoðun er satt best að segja sú að mun fleiri svæði ættu með réttu að fara (Forseti hringir.) í biðflokk samkvæmt þessari skilgreiningu.

Að lokum: Hvar nákvæmlega hófust (Forseti hringir.) hin pólitísku afskipti af þessu máli og hefur þá Alþingi nokkuð um málið að segja ef pólitíkin á ekki að koma nálægt því?

(Forseti (ÞBack): Ein mínúta er fljót að líða og bið ég hv. þingmenn um að virða tímamörk.)