140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

sameining háskóla.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil ráðherra þannig að það sé mjög áhugavert að halda áfram því samstarfi sem er á milli háskólanna og er það vel er ef ég skil hana rétt. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að fjárhagur þessara skólastofnana, og ég ætla að leyfa mér að nefna landbúnaðarháskólana báða sérstaklega í því efni, verði tryggður þannig að þessir skólar geti horft til framtíðar, skipulagt starfsemi sína, sinnt lögbundnum skyldum sínum á sviði landbúnaðarmála eða ferðaþjónustu eða í þeim sérgreinum sem þessar stofnanir kenna, en til þess þurfa þær að tryggja fjárhagslega stöðu sína til framtíðar.

Eftir því sem ég kemst næst hafa þessar stofnanir í raun eingöngu farið fram á fjárþörf þeirra, sem viðurkennt er að er nauðsynleg fyrir þessa skóla, sé uppfyllt.