140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargerð hans. Það er oftar en ekki á málasviði ráðherra sem vandamál skapast í tengslum við félagslega aðstoð eða almannatryggingar. Við erum kannski vanari að heyra dæmi um Íslendinga sem verða fyrir landamærahindrunum á hinum Norðurlöndunum eða fá ekki tiltekin réttindi sem aðrir hafa þar, en eins og ráðherrann nefnir hafa tiltölulega fá slík dæmi verið í umræðunni um norræna menn sem staddir eru hér á landi. Ráðherra dregur hins vegar fram að hér séu strangari reglur um réttindi í kerfinu okkar en á hinum Norðurlöndunum, þ.e. sex mánaða biðtími, og að hann snúi líka að fólki frá hinum norrænu löndunum.

Ég þakka ráðherranum fyrir að vekja athygli á því og spyr hann hvort hann telji ástæðu til að endurskoða þennan biðtíma gagnvart norrænu ríkjunum þannig að við tryggjum þeim sömu réttindi í þessu efni og Íslendingum hér í landinu, eða hvort við teljum það vera ásættanlegt að þeir setji sama biðtíma á okkur þegar við förum til annarra Norðurlanda.