140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í rauninni hörmulegt til þess að vita að við skulum standa í þessum sporum varðandi þetta metnaðarfulla verk sem hafið var fyrir 13 árum. Auðvitað gerðum við okkur öll grein fyrir því á sínum tíma að ekki yrði áhlaupaverk að búa til eitthvað sem menn kölluðu rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Það hlaut að vera erfitt verk í sjálfu sér enda hefur það tekið mikinn tíma og kostað gríðarlega mikla heimildaröflun að komast að einhverri skynsamlegri efnislegri niðurstöðu.

Það er sama hvernig við veltum þessu máli fyrir okkur, staðreyndin er ljós. Hún er sú að um þá niðurstöðu sem fengin er og núna er borin fram inn í þingið er mikill pólitískur ágreiningur. Við þurfum þess vegna ekki lengur að velkjast í vafa um það hvort þessi mikla vinna hafi leitt til þeirrar sáttar sem að var stefnt. Það blasir við í umræðunum sem hafa farið fram, bæði í fyrradag og það sem af er þessum degi, að svo hefur ekki verið. Það tókst að vísu mjög góð sátt í meginatriðum um það sem verkefnisstjórn um rammaáætlun lagði fram í þessu gríðarlega stóra plaggi sem ég held á í minni hægri hönd, sem var hin efnislega vinna eins og hún blasti við í lokaútgáfu nefndarinnar, en hitt er ljóst mál að það sem fylgdi í kjölfarið hefur orðið til að vekja með mönnum mikla tortryggni.

Vísað var í að sett hefðu verið tiltekin lög sem kváðu á um að setja ætti þessi mál, þegar þessari miklu vinnu væri lokið, í tiltekið ferli þar sem almenningi, sveitarfélögum, ríki, stofnunum og öllum sem mögulega gætu haft skoðun á því væri gefinn kostur á að fjalla um málið. Það er að vísu dálítið umhugsunarefni að menn skyldu hafa tekið þá ákvörðun svona mitt í þessu ferli að breyta leikreglunum en látum það vera, það var gert. Það hefði í sjálfu sér ekki þurft að kalla á þau miklu átök sem eru greinilega í uppsiglingu um þetta mál ef síðan hefði verið faglega að þessu máli staðið. Það hefur nefnilega ekki verið faglega að þessu máli staðið.

Það er öllum ljóst, sama hvernig menn veltast um í þessari umræðu, að það sem við höfum núna í höndunum er pólitísk afurð sem hefur mótast í samstarfi stjórnarflokkanna tveggja og þar eru hinar pólitískar áherslur í málinu lagðar. Við þurfum ekki annað en velta fyrir okkur aðdragandanum. Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 28.–30. október 2011 var t.d. ályktað um það að flokknum yrði falið að stækka verndar- og biðflokkinn. Þar með lá fyrir pólitísk yfirlýsing af hálfu annars stjórnarflokksins um það að una ekki niðurstöðunni heldur breyta henni, stækka annars vegar verndarflokkinn og hins vegar biðflokkinn. Við sem höfum fylgst með þessu vitum að um þetta snerust átökin innan stjórnarflokkanna undanfarna mánuði.

Þann 18. janúar sl. birti hæstv. forsætisráðherra nýja þingmálaskrá. Þar stóð að það þingmál sem við erum að ræða hér ætti að koma inn á borð þingmanna 12 dögum síðar, 30. janúar. Þegar slík þingmálaskrá er birt af hálfu forsætisráðherra gefur maður sér það að sjálfsögðu að hæstv. ráðherra sjái svo vel fyrir endann á málinu að það geti birst innan 12 daga. Það tókst ekki. Það liðu heilir tveir mánuðir áður en málið kom loksins hingað inn í þinglegum búningi og þá blasti það við sem við sjáum að tekin hafði verið um það pólitísk ákvörðun að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk. Þetta var pólitísk niðurstaða, ekki fagleg.

Það þýðir auðvitað ekkert að reyna að færa þetta mál í einhvern dulbúning. Ég heyri að hæstv. ráðherrar eru búnir að læra möntruna sína. Þeir hafa farið með hana nokkurn veginn orðrétt hver eftir öðrum, um að þetta sé allt faglegt ferli. Við vitum að svo var ekki. Það var allt annað og stærra undir, undir var líf hæstv. ríkisstjórnar og þess vegna var þetta svona. Auðvitað blasti það við öllum og allir vissu það að þegar mál færu í svona umsagnaferli þar sem allir mögulegir aðilar ættu þess kost að nýju að birta álit sitt þá gætu komið upp álitamál. Í vinnu verkefnisstjórnarinnar sjálfrar var sú leið nákvæmlega farin; kallað var eftir álitum fjölmargra, hagsmunaaðila og annarra áhugasamra aðila, á málinu og yfir þau var farið og síðan tekin afstaða til þeirra. Það sem gerðist hins vegar var að ríkisstjórnin kaus að nota þennan nýja lagalega ramma til að skapa sjálfri sér aðstöðu til að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Hverjar eru síðan afleiðingarnar af þessu? Hæstv. forsætisráðherra var spurð, þegar þessi mál voru nokkurn veginn að skýrast í hinni almennu umræðu, hvaða áhrif þetta hefði á möguleika manna á því að fara í nýtingu á orkukostum sem núna hefðu verið settir í biðflokk. Hæstv. forsætisráðherra svaraði skýrt og sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 10. mars sl. þegar hún var spurð um það hversu fresturinn yrði langur sem þetta mundi hafa í för með sér, með leyfi forseta:

„„Mesta lagi tvö ár meðan verið er að vinna úr þessum athugasemdum sem þarna koma fram.“ Sú vinna eigi ekki að tefja fyrir virkjunum …“

Ég spurði hæstv. umhverfisráðherra um þetta á miðvikudaginn var. Ég gat að vísu ekki heimildar. Ég sagði einfaldlega að því hefði verið haldið fram að þetta mundi bara hafa þau áhrif að frestunin gæti numið í hæsta lagi tveimur árum. Hæstv. umhverfisráðherra svaraði skýrt að það mundu líða fjögur ár hið minnsta áður en ákvörðun yrði tekin. Með öðrum orðum hefur hæstv. umhverfisráðherra nú gert hæstv. forsætisráðherra að ómerkingi. Hæstv. umhverfisráðherra hefur greint okkur frá því að þetta verði ekki að hámarki tvö ár í frestun heldur hið minnsta fjögur ár áður en ákvörðun verður tekin.

Síðan hefur komið fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra að nú sé ætlunin í framhaldi af þessu að setja á laggirnar, ef það sem hér liggur fyrir verður niðurstaðan á Alþingi, nýja verkefnisstjórn. Ég spurði eftir því í umræðu við hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta mundi hafa í för með sér nýtt verklag, hvort ætti að taka tillit til þátta sem ekki hefði verið horft til og hvort ekki væri líklegt miðað við það upplegg sem sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra lagði upp með í ræðu sinni að það mundi fjölga frekar í verndunarflokknum frá því sem nú er og frá því sem gert er ráð fyrir í þessari tillögu. Það vakti athygli mína að hæstv. umhverfisráðherra svaraði ekki þessari spurningu, en hins vegar var málflutningur hennar allur á þann veg að það væri ljóst mál að hún talaði fyrir því og sagði sem svo: Hér þarf að taka tillit til þeirra hluta sem mundu að breyttu breytanda leiða til þess að fjölga mundi í verndunarflokknum. Í rauninni er verið að reyna að teikna upp nýja niðurstöðu með því að breyta leikreglunum og búa til forsendur sem munu leiða til þess arna.

Það er miður eftir allt það streð sem að baki liggur þessari miklu vinnu að það skuli vera búið að eyðileggja trúverðugleika þeirrar aðferðar og þeirrar aðferðafræði sem menn lögðu af stað með. Hæstv. ráðherrar bera auðvitað á því alla pólitíska ábyrgð.

Við skulum ekki gleyma því að þegar menn hófust handa árið 1999 var verið að reyna að komast upp úr ákveðinni átakahefð. Það er ekki þannig að kastað hafi verið til þess höndunum. Fyrsta áfanga þessarar skýrslu verkefnisstjórnarinnar var skilað í nóvember 2003, öðrum áfanga í september 2004. Síðan var lagt á ráðin með frekara framhald þegar skýrslu var skilað í maí 2007 og sjáum við nú lokaáfanga verkefnisstjórnarinnar birtast í gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða í þessu stóra þykka bindi. Með öðrum orðum var gríðarlega mikið tillit tekið til umsagnaraðila. Það var mjög mikið samráð eins og er í rauninni rakið í greinargerð með þingsályktunartillögunni og þess vegna er hörmulegt að við séum í þeim sporum núna að um þetta mál sem átti að skapa frið hafi skapast fullkominn pólitískur ófriður og það gersamlega að þarflausu.