140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

landsdómur.

[13:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fyrir mörgum árum, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, lagði ég fram frumvarp um að breyta fyrirkomulaginu í landsdómslögunum og lögunum um ráðherraábyrgð. Ég held að allir séu því sammála vegna þess að ég man ekki betur en að um það hafi verið fjallað að farið yrði í að skoða þessi lög, landsdómslögin og ráðherraábyrgðarlögin, og að sú endurskoðun ætti að liggja fyrir seinni partinn á þessu ári.

Ég tel ástæðuna fyrir því að breyta þurfi þessum lögum þá að ekki sé heppilegt að ákæruvaldið sé í höndum alþingismanna, en það eru þau lög sem við bjuggum við þegar hrunið skall á og Alþingi ákvað að fara í þessa rannsókn. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ég vona að það gerist ekki aftur að hér þurfi að byggja á landsdómslögunum og ég vona að þingmenn beri gæfu til að setjast yfir það eftir að þessi niðurstaða er fengin hvernig fyrirkomulag þeir vilja hafa í framtíðinni. Ef sýnt er eða líkur eru á að ráðherra hafi gerst brotlegur við ráðherraábyrgðarlögin þarf að vera annað fyrirkomulag fyrir hendi en við höfum þurft að búa við núna sem eru þessi landsdómslög. Ég veit ekki betur en að forsætisnefnd og þeir sem hafa um þetta fjallað hafi einmitt rætt um að skoða þurfi ráðherraábyrgðarlögin og landsdómslögin og ég sé því ekkert til fyrirstöðu að við vindum okkur í það núna þegar lyktir eru fengnar í þetta mál. Það var ekki annað fyrir hendi þegar þetta mál kom upp en að byggja á þessum landsdómslögum.