140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég túlkaði þessi viðbrögð svolítið að þau hefðu verið sjálfvirk og að menn hefðu ekki verið búnir að skoða málið, síðan þegar menn fara að skoða það er líklegra en áður að menn verði jákvæðir til þess.

Það er alveg rétt að allt uppfok af Haukadalsheiði og af þessu svæði öllu saman hættir ekki við það að virkja Hagavatn og stækka þarna svæðið, það er alveg rétt, en sandfokið minnkar. Þetta er jákvætt hvað það varðar og það er líka áhugavert að sjá hverjir eru jákvæðir á þetta, ferðaþjónustan á svæðinu, Landgræðslan og heimamenn. Það eru nánast allir.

Síðan hefur líka verið talað um að þarna yrðu einhverjar línur og alls kyns hlutir. Það er til að mynda ekki í áætlununum núna. Nú er verið að tala um að leggja strenginn í jörð þannig að sú andstaða sem var gagnvart sjónmengun áður er að nokkru og kannski stærstu leyti horfin. Já, ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ég er vonbetri um að fagleg rök muni liggja til grundvallar því mati okkar í atvinnuveganefnd hvort það eigi að færa þennan virkjunarkost úr biðflokki í nýtingarflokk.