140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Aðeins í upphafi út af þeirri umræðu sem hér fór fram þá vil ég benda hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur á að sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér heitir Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Mér finnst stundum, þó að ég beri mikla virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns, eins og að hún og aðrir sem eru sammála henni í nálguninni líti á þetta plagg og þessa vinnu eingöngu til verndar landsvæðum en ekki á það sem lagt var upp með í upphafi, að kortleggja landið á sem faglegastan hátt út frá öllum þeim ólíku sjónarmiðum, ólíku skoðunum sem við kunnum að hafa, með það að markmiði að við getum náð um það sátt hvað beri að nýta og hvað beri njóta eða vernda, ég tel að við getum nýtt og notið á sama tíma.

Ég, eins og aðrir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og ég ætla að hafa mjög fá orð um það, þarf að ítreka það sjónarmið að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með endasprettinn á þessari mikilvægu vinnu. Mér finnst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa fallið í enn einn pyttinn þegar hún á endaspretti þessa máls setur pólitísk fingraför á tillöguna og það er hverjum manni ljóst sem horfir á að það eru ekkert annað en pólitísk hrossakaup sem þarna eru að baki vegna þess að ef mönnum hefði verið einhver alvara með að klára þetta mál í sátt hefði niðurstaðan ekki orðið sú sem við ræðum hér í dag. Við vitum það, ég veit alveg að hv. þm. Guðríður Lilja Grétarsdóttir er á móti virkjunum í neðri Þjórsá. Hún hefur sagt það hér í ræðustól oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég veit að hæstv. umhverfisráðherra er á móti virkjunum í neðri Þjórsá. Hún hefur sagt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hún hefur verið dæmd fyrir það í Hæstarétti og henni er algjörlega sama um það, algjörlega sama, og það má halda því fram að sá dómur sé virtur að vettugi.

Þess vegna er svo augljóst þegar skoðaðar eru þær þrjár virkjanir sem þar um ræðir að þær eru færðar úr nýtingarflokki sem verkefnisstjórnin og þingsályktunartillagan upprunalega gerðu ráð fyrir að færu í nýtingarflokk vegna hagkvæmni, vegna umhverfisáhrifa og vegna allra þeirra þátta sem tekin var afstaða til. Nú er hún tekin á grundvelli einhverra nýrra upplýsinga. Ég leyfi mér að fullyrða að þær upplýsingar sem nú eru taldar svo nýjar og taldar svo mikilvægar að þetta þoli enga bið og verði að fara í bið eru ekkert nýjar. Farið hefur verið yfir það margítrekað, meira að segja af hálfu Landsvirkjunar, að það eru neikvæð áhrif af þessum virkjunum varðandi laxastofnana og varðandi þá nýtingu, og þess vegna eru lagðar til mótvægisaðgerðir og þess vegna hefur verið unnið að miklum rannsóknum og komin er áætlun um hvernig vinna eigi bug á þeim neikvæðu áhrifum. Á endanum verður þetta því spurning um ákvörðun, um ákvörðun. Þá verður að vega og meta hvaða hagsmunum menn berjast fyrir.

Ég sakna þess að sjá ekki hæstv. fjármálaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra hér vegna þess að ég vil spyrja hana beint út: Er hún tilbúin að fórna atvinnuhagsmunum á Suðurlandi, í Suðurkjördæmi öllu, með þessu móti, með því að tefja þessa virkjun? Við vitum öll að hvað varðar Urriðafossvirkjun þá rennur umhverfismatið út þannig að það ferli tefst jafnvel þótt því yrði breytt á næsta ári. Umhverfismatið rennur út á þessu ári.

(Forseti (RR): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að hæstv. starfandi iðnaðarráðherra situr í færeyska herberginu og hlustar.)

Hún situr í færeyska herberginu og hlustar. Ég treysti því að hún taki niður þessa spurningu vegna þess að ég óska eftir að fá svar við henni, ekkert endilega í andsvari við mig en ég treysti því að hún eigi eftir að koma inn í umræðuna og taka til máls. Á endanum þarf að taka ákvörðun, það er það sem þarf að gera.

Þá vil ég varpa spurningu til 1. þm. Suðurkjördæmis sem hefur komið fram með þá hugmynd, og fleiri samfylkingarmenn, að geyma Urriðafoss og taka tvær efri virkjanirnar og færa þær aftur yfir í nýtingarflokk. Þá spyr ég: Af hverju var það ekki gert? Ef hægt er að fara í tvær af þremur, sem ég veit ekki, án þess að kostnaðaráætlun og hagkvæmniathuganir og áform öll beri skaða af, af hverju er það ekki skoðað? Af hverju voru allar þrjár virkjanirnar færðar í bið? Af hverju var ekki Urriðafossvirkjun, ef það er sú virkjun sem málið snýst um, tekin ein til hliðar?

Síðan — nú líður tíminn óskaplega hratt í þessari umræðu — vil ég aðeins gera að umtalsefni, ég ræddi áðan í andsvari um Hagavatnsvirkjun og ætla að ekki að endurtaka það en ítreka það sjónarmið sem þar kom fram, Reykjanesið og jarðhitann vegna þess að það er svo mikið í umræðunni að þarna sé gjörsamlega verið að eyðileggja þetta landsvæði, sem mér er mjög kært og vil fyrir alla muni ekki sjá eyðilagt. Það er talað eins og þar fari borar og gröfur út um allar koppagrundir og ekki sé hægt að koma málum þannig fyrir að hægt sé að gera hvort tveggja sem ég nefndi hér í upphafi, að nýta orkuauðlindirnar og njóta þeirra. Ég fullyrði, eftir að hafa alla mína ævi farið í gönguferðir út á Reykjanes, að þetta fer vel saman.

Varðandi Eldvörpin, af því að ég heyrði í gær viðtal við Ómar Ragnarsson sem ekki þarf að kynna þar sem hann gaf í skyn að þetta væri næsta víglínan, að það yrði að taka Reykjanesið, það yrði að taka Eldvörpin sérstaklega og færa þau úr nýtingu í friðun. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann ætlaði að beita sér gegn þessum virkjunaráformum. Hann minntist á að það væri nú þegar nýting í Svartsengi og þess vegna alveg ástæðulaust að fórna einstökum náttúrufyrirbærum og með því að klára svæðið eins og það var orðað. Mig langar því að nefna hér nokkur atriði.

Það dettur engum heilvita manni í hug, jafnvel þeim sem vilja nýta orkuna, að skerða gíga eða önnur áþekk náttúrufyrirbæri sem eru vernduð samkvæmt náttúruverndarlögum. Það dettur engum heilvita manni í hug að fara af stað með framkvæmd sem mundi skerða gæði þeirra. Sveitarfélögin á svæðinu, þar á meðal Grindavíkurbær, hafa sett svokallaða hverfisvernd á svæðið umhverfis þá gígaröð sem þarna er að finna. Reyndar er gígaröðin sjálf og um 200 metra samsíða belti sitt hvorum megin við röðina sett í verndun. Síðan verðum við að muna og megum aldrei gleyma að sett eru skilyrði fyrir framkvæmdum, m.a. umhverfismat. Það að einhver framkvæmd sé sett í nýtingarflokk þýðir ekki að það eigi með öllum tiltækum ráðum að nýta viðkomandi svæði, heldur að það megi og það megi fara fram rannsóknir. Síðan þurfa slíkar framkvæmdir að fara í gegnum ótal nálaraugu, svo sem umhverfismat, skipulag og alls konar leyfisveitingar. Það er því ekkert annað en hræðsluáróður þeirra sem vilja ekkert nýta, og þeir eiga þá bara að koma fram og segja það, þegar slíku er haldið fram.

Rétt að lokum vil ég nefna að það er einmitt fyrir tilstuðlan fyrirtækja eins og HS Orku, Landsvirkjunar og fleiri fyrirtækja sem almenningur hefur kost á að skoða þessi náttúrufyrirbæri (Forseti hringir.) sem mest er talað um. Ég hef farið á Kárahnjúka margoft eftir að virkjað var þar. Ég bendi aftur á Reykjanesið, svæðið í kringum Gunnuhver. Það er búið að byggja þar upp (Forseti hringir.) fjölsóttan ferðamannastað. Hver gerði það? Jú, sveitarfélögin í samvinnu við orkufyrirtækin.