140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki til að svara því í fyrra andsvari mínu hvort það hefði verið fagleg niðurstaða ef tillögur verkefnisstjórnarinnar hefðu fengið að standa. Ég er ekki algjörlega viss um að svo hefði verið, vegna þess að á síðustu metrum þeirrar vinnu tel ég að við hafi byrjað að fara út af sporinu. Ég held til dæmis að sú skoðanakönnun sem var framkvæmd í lok þeirrar vinnu og viðkomandi kostum raðað í virkjun, bið eða nýtingu hafi verið skoðanamyndandi og að óbreyttu hefði átt að sleppa henni. Eftir að sú niðurstaða lá fyrir vorum við strax komin í þetta tog sem ég held að sé slæmt. Ég hefði viljað að ferlið hefði verið það að þessu hefði verið lokið í þeirri röð sem lagt var upp með og sú röðun fengið að halda sér. Ég held að þannig hefðum við komist næst því að hafa þetta eins faglegt — þó að ég verði að játa að þetta orð, faglegt, sé farið að fara svolítið í taugarnar á mér eftir líftíma þessarar ríkisstjórnar þar sem það virðist vera notað sem annað hvert orð, t.d. við mannaráðningar, en það er önnur saga.

Varðandi skipulagsvaldið. Það er rétt eins og hv. þingmaður benti á að sveitarfélögum er gert að hlíta niðurstöðum rammaáætlunar. Ef allt væri í lagi og þessu ferli hefði lokið án pólitískra afskipta væri það mjög fínt. Ég vil að skipulagsvaldið sé sem mest á forræði sveitarfélaganna. Ég er til dæmis mjög andvíg því hvernig hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur komið gerræðislega fram gagnvart skipulagsyfirvaldinu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi. Þannig að ég tel það ekki vera hættu, (Forseti hringir.) ég óttast það ekki þó að þetta sé sagt svona í lögunum.