140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þessa spurningu. Það er eiginlega akkúrat þetta sem ég er hrædd við. Hérna finnst mér í raun hafa verið farið á ystu nöf með að leika sér að eldinum í að skemma sáttina.

Hvað varðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár skilst mér að það hafi verið svo að það féllu í raun jöfn atkvæði um verndun og nýtingu og svo komu fram viðbótarupplýsingar um laxastofna þar sem ekki virðast ekki liggja nægar rannsóknir fyrir. Þeir virkjunarkostir eru því færðir í biðflokk úr nýtingarflokki. Enginn í nefndinni, ef ég man þetta rétt, lagði til biðflokk en atkvæðin voru jöfn og hvað gerir maður, mætist maður þá á miðri leið? Þetta er spurningin og þetta er eitthvað sem mér finnst við öll þurfa að vera sátt við. Ég verð að viðurkenna að þótt ég sé sátt við einmitt þetta, af því að ég vil ekki virkja í neðri hluta Þjórsár, finnst mér þarna teflt á tæpasta vað.