140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Á morgunverðarfundi í morgun hjá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins þar sem óskað var eftir fulltrúum þingflokkanna kom fram hjá stjórnarliðum að það væri stjórnarandstöðunni að kenna að ýmis framkvæmdamál, eins og nýbygging Landspítalans og ýmis samgöngumál, hefðu tafist. Það kom reyndar líka fram í Fréttablaðinu í morgun. Heyr á endemi. Ég spyr: Hefur ríkisstjórnin ekki meiri hluta á þinginu? Hvernig getur það verið minni hlutanum að kenna að slík mál hafi dregist úr hömlu? Er það ekki ríkisstjórnin sem, eins og við höfum horft upp á trekk í trekk, þing eftir þing, kemur allt of seint með umdeild mál inn í þingið, umdeild innan stjórnarflokkanna? Það er hin raunverulega ástæða seinkunar á öllum þeim málum sem hér hafa verið borin fram. Eða eru allir búnir að gleyma stöðugleikasáttmálanum?

Nú er lítið eftir af þessu þingi, frú forseti, og það er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana, þingflokka Vinstri grænna og Samfylkingar, að forgangsraða þeim málum sem þeir vilja að þingið geti afgreitt sómasamlega fyrir þinglok í vor. Það verklag gengur einfaldlega ekki lengur að hér eigi að þvinga mál í gegnum þingið með minnsta mögulega meiri hluta og hugsanlegum þvingunum á stjórnarliðið og koma svo út og kenna stjórnarandstöðunni um að það gangi eitthvað hægt. Þetta er algjörlega óboðlegur málflutningur.

Varðandi umræðuna um skuldamál minni ég á að við framsóknarmenn höfum lagt fram frumvarp um verðtryggingu sem ég hygg að verði á dagskrá á föstudaginn og ég hvet stjórnarflokkana til að taka það mál til sín og hafa það eitt af þeim forgangsmálum sem við munum (Forseti hringir.) klára í vor.