140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef alltaf litið á það sem sérstök forréttindi að fá að ræða við þingið um utanríkismál og það er mér sérstakt gleðiefni að geta flutt hér árlega skýrslu til þingsins. Hún er um það bil hundrað síður og lýsir ákaflega vel því starfi sem er bæði lifandi og öflugt sem okkar smáa en knáa utanríkisþjónusta sinnir.

Ég vil líka segja út af þeim umræðum sem hér hafa orðið á þessum morgni að ég hef aldrei hafnað því að eiga viðræður við þingið um aðildarumsóknina sem ég hef borið fram í þinginu og mér þykir illt að sitja undir þeim ávirðingum. Mér þykir vænt um að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson staðfesti áðan í umræðunni að ég hefði fallist á umræðu og að búið hefði verið að tímasetja hana. Staðreyndin er sú að ég tel að það sé fátt mikilvægara að ræða milli mín og þingsins en einmitt aðildarumsóknina. Vitaskuld eru mörg önnur mál líka ákaflega mikilvæg og á þessu ári sem ég er núna að flytja skýrslu um hefur fjögur mál borið hæst sem mjög mikilvægt er fyrir okkur að eiga samræður um. Allt eru það mál sem við höfum að mörgu leyti, og í sumum efnum að verulegu leyti, átt gott samstarf um.

Þar er um að ræða umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, viðurkenningu á fullveldi Palestínu, aukna áherslu á þróunarsamvinnu og sömuleiðis á málefni norðurslóða. Ég þakka þinginu afar gott samstarf í þessum efnum. Það kann vel að vera að það sé ágreiningur, og sums staðar djúpstæður, á millum þings, einstakra þingmanna og þingflokka, um aðildarumsóknina en hitt er algjörlega ljóst að samstarfið hefur verið gott. Ég hef hvenær sem er komið til fundar við nefndina til að ræða þau mál. Ég var til dæmis nýlega á tveimur opnum fundum hjá nefndinni þar sem fjölmiðlar mættu og ég hef farið yfir stöðuna eins og hún er og svarað öllum spurningum.

Staða viðræðnanna er núna þannig að í lok mars höfðu 15 kaflar verið opnaðir og tíu lokað. Það þýðir að á þeim níu mánuðum sem sjálfar viðræðurnar höfðu staðið höfum við opnað tæplega helming þeirra 33 kafla sem um þarf að semja og höfum samið um næstum því þriðjung. Við gerum líka ráð fyrir því að opna allt að fimm kafla í júní og við gerum sömuleiðis ráð fyrir því að í lok dönsku formennskunnar verði Ísland búið að afhenda samningsafstöðu í alls 29 köflum, þar á meðal ákaflega mikilvægum köflum sem við höfum beðið eftir að komast í samninga um, svo sem um gjaldmiðilinn, umhverfismál, byggðir og matvæli.

Við höfum oftsinnis tekið umræðu um stöðuna í landbúnaðarmálum gagnvart Evrópusambandinu í þessum sal. Frá því er að greina að í landbúnaði vinna menn nú kappsamlega að því að mæta opnunarviðmiðum sem tengjast þeim kafla. Það er von mín að sú vinna skapi góðan grunn að samningsafstöðunni sem við leggjum vonandi fram í haust.

Frá upphafi höfum við lagt þunga áherslu á að opna sjávarútvegskaflann sem fyrst. Menn þekkja umræðuna í þessum sal. Endurskoðun fiskveiðistefnu ESB hefur tafist um ár. Sambandið á væntanlega erfitt með að ganga til samninga á grundvelli stefnu sem það ætlar sjálft að breyta marktækt í lok næsta árs.

Við skulum heldur ekki ganga að því gruflandi að makríll kunni að hafa þvælst inn í gangvirkið. Við heyrðum öll yfirlýsingar írska sjávarútvegsráðherrans fyrir örskömmu og þó að það liggi algjörlega skýrt fyrir, síðast með yfirlýsingu Barrosos í vikunni til hv. formanns utanríkismálanefndar, að hér sé um óskyld mál að ræða er alveg ljóst að frændur okkar Írar eru reiðir. Svo er um fleiri.

Ég vek hins vegar líka athygli þingheims á orðum stækkunarstjórans. Hann sagði í síðustu viku að hann teldi hægt að opna alla kafla á þessu ári. Í því felast vitaskuld fyrirheit um opnun sjávarútvegskaflans fyrr en seinna og Íslendingar tóku vel eftir því.

Frú forseti. Sjálfur tel ég að auk fiskjar verði mikilvægustu málin myntin og gjaldeyrishöftin. Íslenskt efnahagslíf, með öll sín tækifæri, auðlindir til lands og sjávar, vel menntað og kraftmikið fólk, að ógleymdri mjög sterkri stöðu á norðurslóðum, glímir enn við þá innbyggðu kerfisgalla sem hafa valdið óstöðugleika um áratugaskeið og sem áttu sinn ríka þátt í efnahagshruninu.

Staðan í dag er þannig, eins og við vitum, að yfir okkur hangir snjóhengja í formi ríflega þúsund milljarða strokgjarnra króna í eigu útlendinga. Eitt mikilvægasta viðfangsefni samninganna verður að ná samstarfi við Evrópu um afnám gjaldeyrishaftanna og bræða snjóhengjuna án þess að hún breytist í efnahagslegt hamfarahlaup sem flæðir yfir efnahagskerfi okkar. Þetta tvennt tel ég að sé líklega mikilvægasta viðfangsefni Íslendinga í dag.

Í því efni er rétt að undirstrika að aðild opnar okkur líka leið til að koma krónunni í var. Alveg eins og Slóvenía og Eistland getur Ísland hafið þátttöku í hinu svokallaða ERM II samstarfi aðeins örfáum mánuðum eftir formlega aðild. Um leið kemst íslenska krónan í skjól. Um leið kemst á langþráður stöðugleiki með stuðningi Evrópska seðlabankans, vextir lækka og verðbólgan líka. Aðild að ERM II samstarfinu er háð afnámi gjaldeyrishafta og þess vegna tel ég að þessi leið í gegnum ESB sé besti kosturinn til að losna við þau og snjóhengjuna líka. Ég tel út af þeirri umræðu sem farið hefur fram að það verkefni sé einfaldlega of brýnt til þess að bíða.

Frú forseti. Í umræðunni sem hefur tengst Evrópusambandinu hefur margt borið á góma og menn hafa notað ýmislegt sem upp á hefur komið til að setja fram fullyrðingar um að það sé nauðsynlegt að slá umræðunni á frest. Það er alveg rétt að kringumstæðurnar í aðildarferlinu hafa að mörgu leyti verið óvenjulegar. Evruvandinn er ekki að fullu leystur og Icesave og makríll hafa truflað marga. Þess vegna tel ég að það sé ekkert óvænt við það að andstæðingar aðildar noti þetta sem átyllu til að fresta ferlinu. Það gleður mig hins vegar að þeir eru flestir nógu skynsamir, a.m.k. í þessum sal, til að ganga ekki lengra en það. Það þykir mér athyglisvert.

Siglingin á evrusvæðinu verður vafalítið kröpp enn um sinn. Þar hafa menn, eins og við vitum og höfum rætt í þessum sal, gripið til mjög róttækra ráðstafana til að takast á við núverandi vanda og til að koma í veg fyrir að hann vakni upp aftur. Það sem skiptir mestu fyrir Íslendinga er hins vegar að þegar kemur að þeim tímamótum að við getum gengið í myntbandalagið verður evran orðin sterkari, hún verður komin á traustari þverbita og hún verður orðin betri gjaldmiðill fyrir Ísland en hún var þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag. (Gripið fram í: Er þetta hægt?)

Icesave er í farvegi dómsmáls eins og Íslendingar vildu sjálfir svo varla ætti það að trufla viðræðurnar. Andstæðingar Icesave sögðu sjálfir að málið væri svo stórt að það hyggi að rótum fjármálakerfisins í Evrópu. Í því ljósi hefði ekki átt að koma nokkrum manni á óvart að framkvæmdastjórnin notaði rétt sinn til meðalgöngu í málinu. Ég vakti raunar athygli á þeim möguleika í tilkynningu í fyrri hluta mars. Málflutningsmaður okkar, Tim Ward, sagði fulltrúum þingsins sömuleiðis að hann teldi meðalgönguna líklega. Það vill hins vegar svo til að hann og málsvarnarteymið telja það einróma styrkja stöðu málsóknar Íslands fyrir dómstólnum. Þetta snýst um að vinna mál sem við erum með í töluvert þröngri stöðu. Er þá rökrétt að fresta viðræðum, eins og sumir kröfðust, af því að ESB fer leið sem okkar eigin málsvarar telja að auki vinningslíkur Íslands? Það sjá allir þverstæðuna í málflutningi af þessu tagi. (Gripið fram í: Fullkominn …)

Makríldeiluna sem mjög hefur verið hér til umræðu, og eðlilega hefur skotið mörgum skelk í bringu, höfum við rekið eins og hverja aðra hefðbundna fiskveiðideilu og í slíku eru Íslendingar þjóða bestir. Eins og menn muna vorum við í upphafi útilokuð frá viðræðunum en við höfum náð þeim árangri í krafti reynslu okkar að brjótast að samningaborðinu. Íslendingar banna sjálfir skipum frá Noregi og ESB að landa makrílafla hér á landi. Við gerum ekki athugasemdir við að framkvæmdastjórnin afli sér sams konar heimilda. Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins lítur hins vegar svo á að tillaga framkvæmdastjórnarinnar sé vitabitlaus og hefur í reynd lagt til að heimilt verði að banna innflutning á öllum sjávarafurðum. Það brýtur augljóslega gegn alþjóðlegum samningum og því er að sjálfsögðu harðlega mótmælt af okkar hálfu.

Það er hins vegar mikilvægt að menn geri sér grein fyrir stöðu málsins. Þetta er ekki hin endanlega niðurstaða, tillaga framkvæmdastjórnarinnar var önnur. Nú fer af stað samráð á milli þingsins og ráðsins um hvernig niðurstaðan verður, með aðkomu framkvæmdastjórnarinnar, og það eru þrír til fimm mánuðir í þá niðurstöðu. Þá þarf síðan enn aðra ákvörðun af hálfu framkvæmdastjórnarinnar um hvaða heimildir hún kjósi að nota gegn einstökum ríkjum og þá hugsanlega Færeyjum og Íslandi. Það er alveg ljóst að ef ESB kýs að grípa til einhverra vitlausra aðgerða sem ekki standast munum við að sjálfsögðu meta viðbrögð okkar út frá því. Ég tel að kröfur um að slá aðildarviðræðum á frest séu óðagot og yfirskot í þessu samhengi.

Má ég þá minna á það hverjir gengu á fund stækkunarstjórans í síðustu viku og kröfðust þess að viðræðum við Íslendinga yrði slitið? Það voru einmitt þeir sem vilja ráðast í hvað harkalegastar aðgerðir gegn okkur og harkalegri en framkvæmdastjórnin lagði til. Eigum við þá að taka undir kröfur hörðustu andstæðinga okkar í deilunni? Það tel ég öldungis fráleitt. Við hefðum ekki unnið landhelgisstríðin með því að falla með þeim hætti fyrir kröfum þeirra sem verst vilja okkur. Það sama gildir um þetta mál. (SDG: … sem mest.) Af því að ég heyri hér hvíslað úti í sal þá var það einmitt þessi utanríkisráðherra sem sagði að við kysstum ekki á vönd kvalara okkar. (Gripið fram í.) Ber mönnum að hafa það í huga.

Frú forseti. Ég tel að aðild að Evrópusambandinu snúist um langtímahagsmuni fyrir Ísland. Hún snýst um efnahagslegan stöðugleika, afnám gjaldeyrishafta, lægri vexti, helst um þýska vexti í framtíðinni, um lægri verðbólgu, afnám verðtryggingar og auknar evrópskar fjárfestingar. Hún snýst um að skapa þau störf sem við þurfum á að halda, hún snýst um valkost fyrir íslensku þjóðina inn í framtíðina. Við þurfum að hafa úthald. Við þurfum að hafa úthald í aðildarviðræðunum en við þurfum líka að hafa úthald í deilunni um makrílinn. Ég segi alveg fullum fetum að við getum lokið hvoru tveggja en þá þarf vitaskuld þolgæði og þokkalegt stöðumat hverju sinni. (SDG: Búið að sækja menn?) Það eru margir góðir samningamann sem hægt er finna, bæði í því ráðuneyti sem ég stýri og öðrum og hugsanlega líka í þessum sal, hv. þingmaður, án þess að ég nefni nein nöfn um það. (Gripið fram í: … bjóða …)

Frú forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég hefði átt gott samstarf við þingið um fjölmörg mál sem ég tel rísa mjög hátt á himni utanríkismála. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þinginu fyrir gott samstarf í þessum málum. Það eru sérstaklega þrjú mál sem ég vil draga fram þar sem mér þykir samvinna okkar yfir flokksbönd hafa tekist sérlega vel. Fyrst vil ég auðvitað nefna þau stórtíðindi sem urðu þegar Alþingi samþykkti skömmu fyrir jól að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Þar með varð Ísland fyrsta ríkið í Evrópu og á Vesturlöndum öllum til að taka það sögulega skref. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Það var táknrænt og það var sögulegt. Og mér fannst það sýna stórlyndi þingsins. Fyrir það vil ég þakka þingheimi í dag.

Afstöðuna til Palestínu tel ég vera dæmi um sjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum. Ég gæti líka rakið hvernig það er hægt að taka hana sem dæmi um hvernig lítil þjóð undirbýr af kostgæfni og metur afleiðingarnar af stórpólitískri ákvörðun. Það sem skiptir þó mestu máli í dag er sú staðreynd að við ætlum ekki að sleppa hendinni af Palestínu. Það gleður mig að geta sagt frá því að í mínu góða ráðuneyti vinnum við um þessar mundir að áætlun um það hvernig við getum stutt við palestínsku þjóðina gegnum þróunarsamvinnu. Það væri líka gott að geta notið liðsinnis þingsins í því efni.

Annað mál sem ég vil líka þakka samstarf um er áætlun vegna þróunarsamvinnu Íslands sem þingið samþykkti einróma í fyrrasumar. Ég hef sjálfur notið þeirrar gæfu að upplifa af eigin raun þau áhrif sem framlög til þróunarlanda hafa. Það var áhrifamikil stund fyrir mig þegar ég og nokkrir aðrir Íslendingar afhentum fullgerðan spítala í Monkey Bay í Malaví í síðasta mánuði sem þjónar jafnmörgum íbúum og búa á öllu Reykjavíkursvæðinu. Ég hugsa að líklega gleymi ég seint orðunum sem örlítil ljósmóðir í drifhvítum búningi í íslenskri heilsugæslustöð langt inni í skógi í Nankumbasveit lét falla: Börnin lifa hjá okkur. Og nú eiga Íslendingar örlítinn hlut í 16 þús. börnum sem hafa fæðst á þremur íslenskum fæðingardeildum í héraðinu.

Heimsókn eins og sú sem ég fór í sem fulltrúi Íslands til eins af fátækustu svæðum Afríku breytir viðhorfum manna. Ég játa það fúslega að heim kominn sá ég okkar eigið líf og okkar eigin vandamál í öðru ljósi.

Í dag finnst mér að það sé brýnna en áður og brýnna en margt annað að okkur takist að halda hraðanum sem þið, hv. þingheimur, ákváðuð í fyrra um að 0,7% af þjóðartekjum fari til þróunarsamvinnu. Ég tel ekki síst mikilvægt núna að við höldum þeirri áætlun sem, eins og þið munið, þið hröðuðuð henni umfram það sem tillaga mín var, vegna þess að fram undan er eitt stærsta þróunarverkefni Íslendinga sem við leggjum nú drög að. Það felst í samkomulagi sem við höfum gert við Alþjóðabankann um að kosta í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn allar rannsóknir til að 13 ríki í Austur-Afríku geti aflað orku úr iðrum jarðar. Alþjóðabankinn mun síðan í samstarfi við aðra koma sjálfri orkuvinnslunni á legg.

Við eigum jafnframt í viðræðum við Norðmenn, Breta, Þjóðverja, OPEC-sjóðinn og Japani um að koma til liðs við okkur í þessu stóra verkefni sem ég tel að gæti leitt til gjörbyltingar á högum 150 milljón manna á nokkrum fátækustu svæðum heims. Í tengslum við þetta er líka rétt að geta þess að í síðustu viku skrifaði ég undir samning við ráðherra auðlindamála frá Kína, sem hér var á ferð með forsætisráðherra sínum, um þátttöku Kínverja í verkefnum af þessu tagi. Það er því óhætt að segja að þetta verkefni sé sögulegur áfangi í þróunarsamvinnu okkar.

Frú forseti. Ég minntist á norðurslóðir í upphafi. Ég hef skilgreint þær sem forgangsmál og ég vil síðast en ekki síst þakka þinginu fyrir virkan áhuga á þeim og öfluga þátttöku í stefnumótun. Hugmyndir sem við ræddum hér saman undir ræðu minni til þingsins fyrir tveimur árum eru sem óðast að komast til framkvæmda. Við höfum hert róðurinn gegn hlýnun af mannavöldum og þar með bráðnun. Við höfum tryggt að það verður aukin starfsemi á vegum Norðurskautsráðsins á Íslandi. Við höfum tekið frumkvæði í viðræðum um kortlagningu umhverfisþátta til að undirbúa val á hentugri skipaleið yfir norðurpólinn þegar ísa leysir. Við höfum átt viðræður við grannþjóðir um að Ísland verði miðstöð þjónustu við svæði sem kunna að opnast til auðlindanýtingar.

Við höfum átt viðræður við allar norðurskautsþjóðirnar um að flýta gerð alþjóðlegs mengunarvarnasamnings gagnvart olíu. Við höfum sömuleiðis fengið góðar undirtektir í viðræðum við þær allar um að alþjóðleg björgunarmiðstöð rísi hér í framtíðinni. Við höfum einnig gert þrjá alþjóðlega samninga um samstarf um rannsóknir á norðurslóðum sem verða mikil lyftistöng fyrir íslenska fræðasamfélagið og þá ekki síst okkar ágæta norðurslóðakjarna á Akureyri.

Við höfum líka gert sérstakan samning við Noreg sem felur í sér nýtt embætti prófessors, kennt við Friðþjóf Nansen, í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri, sömuleiðis um námsstyrki handa tíu námsmönnum og um aðgang að rannsóknum á Svalbarða.

Það er þess vegna góður snúningur í þessu máli sem við öll höfum haft mikinn áhuga á að koma fram.

Frú forseti. Ég vil svo í lok þessarar framsögu nota tækifærið og þakka þinginu, sérstaklega utanríkismálanefnd og ötulum og úrræðagóðum formanni hennar, og öllum þeim sem starfa fyrir Íslands hönd að utanríkismálum fyrir þeirra góða starf í okkar þágu. Utanríkismál eru snúið viðfangsefni og þar er ekkert gefið. Við búum sem betur fer að því, bæði í ráðuneyti mínu og hér í þinginu, að þar er reynt fólk. Reyndar er á báðum stöðum vaxandi reynsla sem er gott fyrir Ísland. Við munum í vaxandi mæli þurfa á slíku fólki að halda í framtíðinni. Í því ljósi ber mér kannski sérstaklega að þakka samninganefnd Íslands í viðræðunum við Evrópusambandið og um leið þeim fjölmörgu fulltrúum hagsmunaaðila, félagasamtaka og stjórnsýslu sem taka þátt í því brýna verkefni. Í þeim hópi eru vafalítið skiptar skoðanir um Evrópumálin rétt eins og ríkja á meðal okkar Íslendinga en ég get hins vegar staðfest að í samningaliðinu ríkir góður andi, þar ríkir breið samstaða um að standa þétt saman um hagsmuni Íslands og koma heim með sem bestan aðildarsamning. Þegar öllu er á botninn hvolft, frú forseti, erum við nefnilega öll í sama liði þegar kemur að hagsmunum Íslands.