140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra varðandi öryggis- og varnarmál. Á bls. 63 í skýrslunni er rætt um samkomulag sem utanríkisráðherra og innanríkisráðherra gerðu með sér 11. desember 2010 við niðurlagningu Varnarmálastofnunar. Þar er talað um að samkomulagið „sem þó telst tímabundin ráðstöfun“, eins og segir hér, með leyfi forseta, feli í sér að Landhelgisgæsla Íslands yfirtók nær öll meginverkefni Varnarmálastofnunar o.s.frv.

Síðan er rætt um að varnarmálalögum hafi verið breytt í september sl. og um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta er áfram kveðið á um að pólitískt forræði varnarmála liggi hjá utanríkisráðherra. Nú spyr ég, þar sem Landhelgisgæslan er á forræði hæstv. innanríkisráðherra og þessi verkefni eru borgaraleg, er sinnt af borgaralegum stofnunum: Hvernig fer það saman að hæstv. utanríkisráðherra fari með forræði á málefnum sem heyra í raun og sann eftir nýju skipulagi undir hæstv. innanríkisráðherra?