140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Allt er óbreytt frá því sem lagt var fyrir utanríkismálanefnd á sínum tíma. Sá strúktúr sem þar var dreginn upp er enn í gildi. Nú er komin reynsla á hann og hann hefur gengið vel.

Hv. þingmaður spyr af hverju ekki sé búið að ganga frá þessum málum endanlega. Það er rétt hjá henni að þetta var tímabundið samkomulag. Ég get greint henni frá því að vinna hefur verið í gangi millum ráðuneytisstjóranna til að útfæra ákveðna hluti og eftir því sem ég best veit er það langt komið.

Varðandi síðan, eins og ég skil hv. þingmann, hvernig það gangi pólitískt að ég sjái um tengslin við Atlantshafsbandalagið á sama tíma og innanríkisráðherra er yfir Landhelgisgæslunni þá hefur það gengið mjög vel. Við höfum t.d. verið saman á fundum með erlendum fulltrúum annarra ríkja sem hafa komið til að ræða þessi mál (Gripið fram í.) og það er alveg ljóst að samstarf við þessi gömlu samstarfsríki okkar hafa ekki gengið verr. Ég tel raunar að það hafi gengið betur. Þannig tala menn við mig.