140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í svari hv. þingmanns eins og ég skil það kom fram að umboðið fyrir ríkisstjórn Íslands kom þá beint frá Sameinuðu þjóðunum og það þurfti þá væntanlega ekkert að ræða það í ríkisstjórn Íslands. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef þessi túlkun er röng.

Við vitum að þetta var ekki rætt þegar ákvörðun var tekin um að Ísland yrði formlegur aðili að aðgerðum Atlantshafsbandalagsins með því að beita ekki neitunarvaldi. Það var ekki rætt í ríkisstjórn. Nú er nýgenginn dómur í landsdómi þar sem sakborningur var fundinn sekur um að hafa ekki haldið fund um mikilvæg mál. Ég bið hv. þingmann um að heimfæra þetta yfir á það, skiptir þetta máli?

Ég vil aftur ítreka spurningu mína frá fyrra andsvari um hvernig hv. þingmaður og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hugsar sér að beita áhrifum sínum til góðs (Forseti hringir.) innan bandalagsins, ef ekki með því að nýta neitunarvald og beita neitunarvaldi til að koma utanríkispólitískri stefnu Vinstri grænna á heimskortið.