140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, það var margt sem hann kom inn á sem væri vert að ræða hér. Ég ætla aðeins að fjalla um þau ummæli hv. þingmanns að það væri mjög heimskulegt að draga umsóknina til baka. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um þetta og tel að hægt væri að finna margt heimskulegra en það. Ég er á þeirri skoðun að það sé vitlausara að halda áfram þessu aðildarferli sem enginn virðist hafa sannfæringu fyrir eða fylgja eftir nema nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar. Að fara í þessa vegferð með Vinstri grænum með því hugarfari að þeir séu að kíkja í pakkann en hafi í raun engan áhuga á að fara þarna inn er að mínu mati enn þá vitlausara en sú tillaga sem ég hef lagt fram í þinginu og fjölmargir hafa tjáð sig um að sé eina rétta leiðin, þ.e. að draga umsóknina til baka. Margir aðildarsinnar eru á þeirri skoðun að ekki sé verið að gera þeim og þeirra málstað neinn greiða með því að halda áfram umsóknarferlinu undir þessum formerkjum og hafa komið því á framfæri að þeir telji rétt að setja málið á ís.