140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:45]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákaflega gaman að eiga orðastað við hv. þingmann um íslensku landbúnaðarstefnuna. Mér finnst mikilvægt að taka vel í allar hugmyndir sem þar koma fram og við bændur — ég get sagt það því að ég er starfandi bóndi — höfum alltaf verið til viðræðu um hvernig landbúnaðarstefnu okkar sé best fyrir komið. Það er mikilvægt að menn hafi það í huga. Við undirritun búvörusamninga árið 2009 var samþykkt bókun þar sem kom fram að bændur og ríkisvald ynnu sameiginlega að því að skoða landbúnaðarstefnuna og hverju mætti breyta. Við bændur erum því til í það á hverjum tíma.

Varðandi þessa ríkisstyrki og umræðuna um þá er ég tilbúinn að skoða einhvers konar breytingar á þeim, en það verður að hafa í huga að í Evrópusambandinu er svolítið verið að verja fjármunum í að hafa fólk á ákveðnum stöðum. Ég er tilbúinn að breyta strúktúrnum á útdeilingu ríkisstyrkja, en við verðum alltaf að hafa í huga að það er mjög mikilvægt að menn fái styrki eða niðurgreiðslur fyrir að (Forseti hringir.) gera eitthvað, en ekki bara fyrir að vera einhvers staðar.