140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:11]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem er efnismikil og tekur á hinum ýmsu þáttum utanríkismála. Ég lagði áherslu á og það kom fram í máli mínu undir liðnum um fundarstjórn forseta að taka ætti sérstaka umræðu um Evrópusambandsmálin, um stöðu Evrópusambandsviðræðnanna, um það hvernig Evrópusambandið beitir okkur stöðugt þvingunum, hvernig Evrópusambandið er farið bæði beint og óbeint að hafa inngrip í íslenska stjórnsýslu. Ég hefði viljað og vil enn taka þetta sem sérstaka umræðu.

Ég óskaði eftir því hinn 21. febrúar sl. að þá yrði tekin sérstök umræða á Alþingi um stöðu Evrópusambandsviðræðnanna, ekki hvað síst út af þeirri skýrslu og þeirri ályktun sem þá lá fyrir sem drög frá utanríkismálanefnd Evrópuþingsins um mat hennar, tillögur og nánast tilmæli eða skilyrði fyrir áframhaldandi viðræðum í skýrslu sem utanríkismálanefnd Evrópusambandsins samþykkti og lagði síðan fyrir Evrópuþingið sem það samþykkti sem ályktun sína hinn 14. mars sl. Ég lagði þessa beiðni fram þá og hef ítrekað hana hvað eftir annað, eins og kom fram í máli mínu í morgun, og þá að hæstv. forsætisráðherra yrði til svara vegna þess að hún er samnefnari ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Það er nokkur vandi fyrir forsætisráðherra að vera forsætisráðherra fyrir samsteypustjórn þar sem flokkarnir hafa opinberlega hvor sína skoðun á málinu. Þá gæti maður haldið að forsætisráðherra ætti að koma fram sem eitthvert sameiningartákn en ekki sundrungarafl innan ríkisstjórnarinnar.

Ég er alveg klár á því að utanríkisráðherra fer með framkvæmdina á einstaka þáttum í því umsóknar- og aðlögunarferli sem sett var í gang eftir að umsóknin var send inn. En þetta er eitt stærsta mál þjóðarinnar og hefði átt að vera löngu búið að taka um þetta sérstaka umræðu. Sú krafa mín að tekin verði sérstök umræða um Evrópusambandsmálin í ljósi þessa sem ég hef nefnt stendur óbreytt þó að þessi umræða um utanríkismál af hálfu utanríkisráðherra fari fram. Það er samt sorglegt og óréttmætt að önnur utanríkismál skuli þá falla í skuggann af þessari umræðu.

Ég minni á að forsætisráðherra þessarar samsteypuríkisstjórnar sagði í ræðu í fyrirspurnatíma á Alþingi 16. febrúar sl., með leyfi forseta:

„… við þurfum að snúa okkur að því að klára það verkefni sem lagt var af stað með í þessari ríkisstjórn, að ljúka aðildarferli okkar að ESB og snúa okkur að því að breyta gjaldmiðlinum.“

Þarna var ekki forsætisráðherra að tala sem forsætisráðherra fyrir tvo ríkisstjórnarflokka sem annar ætlaði að fara inn í Evrópusambandið og hinn aldrei, heldur var forsætisráðherra að segja: Við skulum „klára það verkefni sem lagt var af stað með í þessari ríkisstjórn, að ljúka aðildarferli okkar að ESB …“ (Gripið fram í: Já.)

Ég kannast aldrei við að þetta hafi verið samþykkt með þeim hætti sem forsætisráðherra segir. Það má vel vera þess vegna, frú forseti, að það sé of mikið til í því sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar lét liggja að í morgun í umræðum um fundarstjórn forseta, einmitt út af þessu máli, eitthvað á þann veg að ekki þýddi að taka of djúpa umræðu um málefni eins og ESB við forsætisráðherra. Ég tel það samt ekki nægileg rök, herra forseti. Látum það vera en krafa mín um sérstaka umræðu um þetta stendur.

Þá vil ég víkja að því sem barst aðeins í tal hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, um stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fyrir mér hefur það verið alveg fullkomlega ljóst, alla tíð frá því að ég gerðist félagi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og átti ásamt mörgum góðum öðrum mönnum, körlum og konum, þátt í að móta grunnstefnu flokksins, að hluti af grunnstoðum hans væri einmitt sjálfstæð utanríkisstefna og það að berjast gegn áformum um aðild að Evrópusambandinu. Ég leyfi mér að minna á samþykktir flokksins í þessum efnum, t.d. í málefnahandbók flokksins sem er einn af grunnhornsteinum í starfi hans. Þar er áréttuð stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ég hef staðið fyrir, og fleiri en mér hafa fundist sumir félagar mínir vera þar of linir í hnjánum og heldur betur kiknað.

Með leyfi forseta segir í málefnahandbók Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs:

„Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar …

Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi geta sjálf tekið ákvarðanir um lagabreytingar hliðstæðar þeim sem ákveðnar eru innan ESB, ef þau svo kjósa og þá út frá eigin forsendum. Aðild að ESB mundi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum.“

Þetta hefur verið Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ljóst allt frá byrjun og er hornsteinn í hennar stefnu. Hvers vegna erum við þá að víkja frá því?

Það segir enn fremur í þessari málefnahandbók, með leyfi forseta:

„Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað. Íslendingar eiga ekki að sækjast eftir sérsamningum heldur axla sömu ábyrgð og önnur fullvalda ríki á alþjóðavettvangi“ og það utan aðildar að ESB.

Þessi stefna hefur síðan verið áréttuð ítrekað, bæði á landsfundum og flokksráðsfundum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þannig að hún ætti að vera öllum ljós. Hitt er því miður staðreynd að eftir síðustu kosningar féllst meiri hluti þingflokksins á að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni undir þeirri kröfu sem sett hafði verið fram með beinum og óbeinum hætti um að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Ég var því andvígur, taldi þetta hvorki samrýmast stefnu flokksins né því sem við höfðum lofað í okkar kosningabaráttu. Auk þess væri þetta ekki brýnasta málið til að leggja upp með eftir kosningar þar sem verkefnið var fyrst og fremst að takast á við hrun og erfiðleika sem stöfuðu af efnahagshruninu og óstjórn ríkisstjórna, fyrst ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og síðan keyrði um þverbak í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem á endanum hrökklaðist frá eins og við munum.

Þetta hefur síðan verið einn mesti fleinn í öllu holdi sem lýtur að störfum Alþingis, samstarfi þessarar ríkisstjórnar og verkefnum sem hún hefur þurft að takast á við, það að þjóðin, þingið og ríkisstjórnin hefur verið klofin í afstöðu sinni til þess gjörnings að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Það er alveg hárrétt að þetta hefur kostað okkar flokk, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, blóð, svita og tár. Sumir segja að þetta hafi verið jafnvel bein eða óbein svik við stefnu flokksins, það að samþykkja að senda inn þessa aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Við erum búin að missa þingmenn úr þingflokknum, ekki hvað síst út af ágreiningi um þá vegferð sem þarna var lagt í, öfluga þingmenn sem ekki gátu fylgt þessu frekar. Það var mjög dýrkeypt. Við þekkjum síðan þann klofning sem hefur verið bæði á Alþingi og innan ríkisstjórnar í þessum efnum. Ég þekki vel afstöðu kjósenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um allt land sem eru afar óhressir með þá vegferð sem flokkurinn þarna lagði upp í og telja að hún sé ekki í samræmi við þau kosningaloforð og stefnu sem flokkurinn lagði upp með.

Það eru komin nærri þrjú ár síðan þessi umsókn var send inn og þá var sagt að henni yrði kannski lokið og lægi fyrir niðurstaða í málinu innan þriggja ára en nú heyrum við að það séu líkur til að það verði enn lengri tími þangað til það verður. Ég virði skoðanir þeirra sem vilja leggja allt á sig til að komast inn í Evrópusambandið og berjast fyrir því fyrir opnum tjöldum, eins og hæstv. utanríkisráðherra gerir og fleiri í hans flokki. Þeir segja: Við viljum inn í Evrópusambandið, við viljum gera allt til þess að það geti gengið sem hraðast fyrir sig. Utanríkisráðherra segist vilja vinna það þokkalega efnislega án þess að skýra það nánar. Það er í sjálfu sér virðingarvert en fyrir okkur, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa allt aðra stefnu og vilja ekki lengur halda þessari vegferð áfram, alveg er óásættanlegt að reka hér umsókn og segja: Ég er algjörlega á móti henni en samt er ég að vinna að þessu. Slíkt skapar ekki mikinn trúverðugleika.

Ég hef stutt þær hugmyndir sem hafa komið fram um að þessi umsókn verði stöðvuð og það verði kosið um framhald hennar ef menn vilja svo. Alþingi sendi þessa umsókn af stað og Alþingi getur stöðvað hana. Við vitum alveg hverjar kröfur Evrópusambandsins eru, við vitum að það hefur sett opnunarskilmála á landbúnaðarkaflann, vill ekki frekari viðræður við okkur um landbúnaðarmálin nema við föllumst á að gera grein fyrir því hvernig við viljum laga íslenskan landbúnað að Evrópusambandinu og leggja fram áætlun þar um áður en samningar halda áfram. Við þekkjum kröfu þeirra í sjávarútvegsmálum, við þekkjum kröfu þeirra núna svo berlega í makríldeilunni þar sem við sækjum á grundvelli alþjóðahafréttarlegra möguleika og hafréttarsáttmála okkar rétt til að veiða makríl sem kemur hingað upp að ströndinni í gríðarlega miklu magni. Við veiðum hann allan innan íslenskrar lögsögu og þá kemur Evrópusambandið og segir: Heyrðu, ég á þennan makríl.

Nú á að stilla okkur upp við vegg og hóta okkur efnahagsþvingunum fyrir að sækja okkar eigin rétt í þessum efnum.

Menn hafa sagt að þessar kröfur tengist ekkert Evrópusambandsviðræðunum, þessar þvingunaráætlanir og þessar þvingunarkröfur Evrópusambandsins. En auðvitað gera þær það. Einstakir þingmenn og ráðherrar af hálfu Evrópusambandsins hafa lýst því yfir, en undirliggjandi er krafan að Evrópusambandið vill náttúrlega ráða skiptingu deilistofna. Um það takast menn á. Þess vegna er makríllinn núna prófsteinn á það hvort við fáum að halda okkar sjálfstæða rétti til að semja á okkar eigin forsendum sem sjálfstæð þjóð um hlutdeild okkar í fiskveiðiauðlindinni og núna beint makrílnum.

Ég vona að ég þurfi ekki að óttast það en ég óttast samt að hnén bogni of fljótt í einstaka forustumönnum íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfum Evrópusambandsins varðandi makrílinn til að Evrópusambandsumsóknin geti haldið áfram hvað það varðar. Alþingi verður að veita ríkisstjórn og þeim sem fara hér með þessi samningamál öflugt aðhald til að koma í veg fyrir að menn þar láti undan kröfum Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur svo sannarlega sýnt (Forseti hringir.) klærnar sínar og gerir það alveg ófeimið.