140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg hárrétt að ein meginástæðan fyrir ráðherraskiptum er einmitt afstaða mín í Evrópusambandsmálunum og það að gefa ekki eftir fyrir fram í þeim efnum.

Það er hins vegar athyglisvert í ljósi spurningar hv. þingmanns að Evrópusambandið sjálft, Evrópuþingið, telur ástæðu til að álykta sérstaklega um ráðherrabreytingarnar um áramótin.

Í ályktun Evrópuþingsins segir að það fagni eða taki með velþóknun eftir uppstokkun í íslensku ríkisstjórninni þann 31. desember 2011 og lýsir ánægju, trausti og tiltrú á að hin nýja ríkisstjórn muni halda áfram samningum af enn meiri áherslu og þrautseigju á sviði skuldbindingar um aðildarferlið. Þetta var lausleg þýðing á þessum enska texta ályktunar Evrópuþingsins.

Evrópuþingið sá alla vega sérstaka ástæðu til að fagna ráðherraskiptunum (Gripið fram í.) og vonaðist til að ríkisstjórnin mundi verða enn samhentari í að keyra fram aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, sem hún sjálfsagt er.