140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem hægt er að tæpa á í svari við spurningum hv. þingmanns. Eitt er að þjóðin virðist almennt vera frekar mótfallin því að ganga í Evrópusambandið. Hins vegar vill hún ljúka viðræðunum. Þjóðin vill fá að taka upplýsta ákvörðun um hvernig samningurinn lítur út. Það er mjög auðvelt að halda röngum upplýsingum að þjóðinni. Ég held að það sé mjög einkennandi fyrir þá umræðu sem á sér stað og hefur átt sér stað á undanförnum árum og það eru í raun og veru bestu rökin gegn því að við eigum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðum. Það er mjög auðvelt að slá upp fyrirsögnum um að þetta og hitt sé nú vont við Evrópusambandið. Ég vil því leggja áherslu á að það sem er mikilvægast fyrir okkur öll, hvort sem við erum fylgjandi Evrópusambandinu eða mótfallin, er að við fáum að vita hvernig pakkinn lítur út. Erum við hrædd við að sjá hvernig samningurinn mun líta út eða hvaða lausnir verða í sjávarútvegi, landbúnaði, byggðamálum og gjaldmiðilsmálum? Nei, ég er ekki hræddur við að við getum ekki tekið afstöðu til þess. Þess vegna segi ég við hv. þingmann: Verum óhræddir, sjáum hvernig pakkinn lítur út.

Ég tel að stjórnmálamenn eigi að hafa dug í sér til að horfa fram á veginn. Þeir eru kosnir hingað inn til að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig við getum skapað fyrirtækjum og heimilum góðan aðbúnað til þess að vaxa og dafna. Það eigum við að gera. Hluti af þeirri lausn sem stór hluti þjóðarinnar horfir til er innganga í Evrópusambandið vegna þess að þjóðin hefur í raun og veru gefist upp á íslensku krónunni. Við höfum séð dæmi um að allir stjórnmálaflokkarnir vilja í raun og veru skoða möguleika á upptöku annarrar myntar. En hins vegar hefur þeim ekki tekist, nema Samfylkingunni, að sýna með hvaða hætti það beri að gera. Samfylkingin einn flokka hefur lagt fram raunhæfa áætlun um hvernig við getum losað okkur við íslensku krónuna.