140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[20:37]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Vegna aðstæðna hef ég því miður ekki getað fylgst nægilega vel með þessum umræðum sem fram hafa farið í dag en ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir þessa skýrslu og yfirferð. Í því sem ég hef þó getað fylgst með af umræðunum hefur komið bersýnilega fram að þingheimi liggur eðlilega langmest á hjarta aðildarviðræðuferlið við Evrópusambandið. Þess vegna tek ég heils hugar undir með þeim sem brýna fyrir stjórn þingsins að um það hvernig við höldum á þessum málum fari fram alveg sérstök umræða. Það má ekki gerast að önnur veigamikil mál í utanríkismálum og hvað varðar utanríkisstefnu okkar Íslendinga falli algjörlega í skuggann af því einu. Vegna þess hversu mikill tími hefur farið í að ræða Evrópusambandið og þess hversu oft og ítrekað ég hef lýst skoðunum mínum í þeim efnum, skoðunum sem ýmsir hafa í raun endurspeglað í sínum ræðum og andsvörum í dag, langar mig til að byrja á ýmsum öðrum þáttum.

Mig langar fyrst að þakka hæstv. ráðherra fyrir framgöngu hans hvað varðar viðurkenningu á sjálfstæði Palestínuríkis. Þetta var stund á þingi og í sögu okkar utanríkismála þar sem ég var stolt og glöð. Ég tel okkur hafa tekið þann málstað sem okkar litla land á að taka yfir línuna í utanríkismálum.

Á stórum ráðstefnum, fundum og samkomum úti í hinum stóra heimi er það ekki beinlínis þannig að allir standi á öndinni að hlusta eftir því hvað litla Ísland hefur að segja. Ef við einblínum hins vegar á það að taka upp málstað þeirra sem minna mega sín, þeirra sem þurfa svo mikið og jafnvel örvæntingarfullt á því að halda að heyra einhverja rödd þarna úti sem heldur á lofti þeirra efnum getum við, jafnvel þótt við séum lítil og vanmegnug á ýmsan hátt, farið fram af reisn og verið stolt af okkar hlut.

Varðandi Palestínu sérstaklega skiptir máli að fylgja þessari viðurkenningu eftir, efla þátttöku okkar í þróunarsamvinnuverkefnum og sýna áfram í verki og fjármögnun hug okkar. Þetta mál er nátengt hinu stóra málefnasviði mannréttinda og það er mjög athyglisvert sem hefur komið fram og er minnt á í þessari skýrslu hæstv. ráðherra að staða mannréttinda á Íslandi var tekin fyrir í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna nýlega, í október sl. Ef það er þannig sem ég vona að við flest, ef ekki öll, getum verið sammála um, að við Íslendingar eigum fyrst og fremst að vera rödd lítilmagnans, þ.e. rödd mannréttinda í heiminum, gerum við það best með því að taka okkur á heima fyrir og sýna í verki hvernig við ætlum að ganga fram heima til að vera trúverðug annars staðar.

Það var bent á ýmislegt athyglisvert í þessu samhengi, og reyndar hefur Evrópuráðið einnig bent á það, tilmæli til okkar sjálfra sem lúta að fjölmörgum þáttum, svo sem fangelsismálum og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, alþjóðlegum skuldbindingum okkar, stöðu viðkvæmra hópa og kynbundnu ofbeldi. Þarna blasir strax við verðug heimavinna okkar.

Um leið er sitthvað í þessum efnum sem við getum fagnað og verið ánægð með, eins og fullgilding ýmissa alþjóðasamninga, Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum og þátttöku almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Reyndar gekk okkar leið ekki eins langt og ég hefði helst kosið. Það er annað mál, við gerðum þetta samt og höfum gert þetta. Það er stórt skref í rétta átt. Hið sama má segja um Evrópuráðssamning um aðgerðir gagn mansali, samning Evrópuráðsins um að berjast gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi og að lögð verði fram þingsályktunartillaga um fullgildingu á Lanzarote-samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Það væri hægt að halda langt mál um einmitt þessi efni.

Sú sem hér stendur hefur að sjálfsögðu mjög mikinn áhuga á mannréttindum kvenna og barna sem í reynd eru lykillinn að öflugri þróunaraðstoð og þróunarvinnu og svo að sjálfsögðu mannréttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgenderfólks. Um það hef ég fjallað hér áður þannig að ég ætla ekki að fjölyrða um það ýkja lengi á svo skömmum tíma. Eitt er þó víst og það er að þörf er á auknum framlögum til mannréttindamála. Við þurfum að efla samstarf okkar og rödd í þessum efnum á vettvangi ýmissa alþjóðasamtaka, þar á meðal Evrópuráðsins, en þar hefur dregið úr þátttöku okkar. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að beita sér fyrir slíku samstarfi.

Ég var svo heppin að fá að vera á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í haust og kynnast starfi okkar þar. Ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt að utanríkisþjónustan okkar, af því sem ég hef kynnst henni, ekki bara í New York heldur víða um lönd, sé að vinna mjög ötult og gott starf sem við eigum að vera þakklát fyrir og ekki vanmeta. En þetta sem ég hef talað um hér tengist að sjálfsögðu því sem ég nefndi áðan sem er þróunarsamvinna. Eins og við vitum eru markmið Sameinuðu þjóðanna um framlög 0,7% af vergum þjóðartekjum og okkar framlag er enn sem komið er talsvert undir þessu viðmiði, stefnir í um 0,2% á árinu 2012. Ég er mjög ánægð með að við höfum, þrátt fyrir okkar krísu, sagt að við ætlum og munum stefna að því með hraði að ná þessu lágmarksviðmiði. Ég legg áherslu á orðið lágmark því að auðvitað er það þannig, og það er nokkuð sem við ættum að minna okkur sjálf á á hverjum einasta degi, að okkar krísa er barnaleikur við hliðina á því sem svo margir þurfa að þola.

Það er mjög mikilvægt að fylgja eftir þessari fyrstu heildaráætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Það er margt gott að gerast þar og við þurfum stöðugt að minna á í verki að mæður og börn eru alfa og omega árangursríkrar þróunarsamvinnu. Þar eiga áherslur Íslands að liggja.

Sérstakt áhugamál mitt hefur um langa hríð verið málefni norðurslóða og þar erum við líka að taka jákvæð skref fram á við, búin að samþykkja heildstæða norðurslóðastefnu sem miði að því að tryggja hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti. Það er mjög margt að gerast í þessu samstarfi. Ég hef verið mjög virk í þingmannanefnd þessa samstarfs og þar fara saman ýmsar áherslur sem ríma við áherslur Íslands, m.a. það að tryggja og treysta með öllum ráðum áhrif Norðurskautsráðsins. Ég var síðast fyrir nokkrum dögum að flytja erindi um þessi mál, um hvernig hugmyndir okkar í þingmannanefndinni miða að því að efla Norðurskautsráðið, gera það formfastara, tryggja að það sé einmitt sá vettvangur þar sem á að leysa málefni norðurslóða, vinna að strategíu til lengri tíma á þeim vettvangi og gera ákvarðanir Norðurskautsráðsins lagalega bindandi í mun ríkari mæli en nú er þótt þar hafi einmitt verið tekin áhrifamikil og góð skref nýlega.

Ég gæti flutt hér langt mál um réttindi frumbyggja. Í takt við mannréttindaáherslur og þróunarsamvinnu finnst mér að Ísland eigi skýlaust að hafa þau efst á sínu blaði. Um það hef ég einnig talað hér áður og ætla ekki að fjölyrða um það, en það er algjör lykill að hjartanu að velgengni og velferð norðurslóða til framtíðar og augljóslega eiga umhverfismálin að haldast þar í hendur við réttindi þeirra sem þau og gera.

Þá kem ég að lokum að stóra málinu sem langflestir hafa talað um í dag, eðlilega. Ég ítreka að auðvitað ætti að fara fram alveg sérstök umræða um Evrópusambandið því að annað má ekki falla gjörsamlega í skuggann. Það er svo margt annað sem er mikilvægt í þessum efnum. Nú endurtek ég væntanlega það sem ég hef sagt oft áður, það er augljóslega mín skoðun og þar á ég að vera í samhljómi við stefnu minnar hreyfingar um að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Ég taldi alltaf nauðsynlegt að kalla fram vilja þjóðarinnar áður en þetta ferli færi af stað og tel enn mjög mikilvægt að það gerist hið fyrsta. Sumir hafa talað fyrir því að flýta því að framkalla efnislega niðurstöðu og að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að draga viðræður á langinn. Ég tek einnig undir það. Það er talað um að setja tímamörk og leyfa þjóðinni að taka afstöðu eins og henni var lofað. Í það minnsta er í mínum huga alveg ljóst að það verður að endurskoða þetta viðræðuferli og stinga ekki hausnum í þann sand að láta eins og ekkert sé að gerast í Evrópu. Augljóslega, bara á þessum þremur árum sem við horfum á frá því að þetta ferli byrjaði, horfir Evrópusambandið framan í einhverja mestu kreppu frá seinni heimsstyrjöld, og Evrópuþjóðir þar með. Þegar talað er eins og valkostir Íslands séu eingöngu milli hafta og ESB, engra fjárfestinga á Íslandi og ESB, engrar uppbyggingar á íslensku efnahagslífi og ESB, stenst það enga skoðun og við verðum að líta á þessi mál út frá miklu víðara sjónarhorni en oft vill verða. Gjaldmiðlamál heimsins almennt eru í uppnámi. Þau okkar sem hafa fylgst með erlendum fjölmiðlum vita að þar eru stærstu fréttirnar vikulega og daglega hvort evran yfir höfuð hafi það af og þá með hvaða félagslega tilkostnaði, hvað fólk í Grikklandi, á Spáni og í hinum ýmsu Evrópuríkjum þurfi að greiða (Forseti hringir.) fyrir að halda evrunni á floti.

Um þetta er augljóslega hægt að halda langa tölu og þess vegna held ég, eins og ég hef sagt áður, að það væri mjög mikilvægt að halda (Forseti hringir.) sérumræðu um Evrópumálin. Lokahnykkurinn er það sem ég sagði áðan, það þarf að endurskoða þetta aðildarviðræðuferli (Forseti hringir.) og það þarf að flýta því að framkvæma (Forseti hringir.) efnislega niðurstöðu og leyfa þjóðinni að komast að borðinu (Forseti hringir.) fyrr en seinna.