140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

vinna við landbúnaðarkafla í ESB-viðræðunum.

[10:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í umræðum í gær um skýrslu utanríkisráðherra kom fram, m.a. í máli hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar, þar sem talað var um samningsmarkmið í landbúnaði að vinna við það væri á fullu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu. Það kom einnig fram í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál og í umræðunum sem þingmenn tóku þátt í í gær að 70, 80 eða 90% af umræðunni fóru í Evrópusambandsviðræðurnar en ekki í önnur utanríkismál sem ættu í það minnsta að vera okkur jafnmikilvæg. Við þekkjum að mikill tími og fjármunir hafa farið á þessu kjörtímabili í þessa Evrópusambandsvinnu.

Það kom líka fram í fjárlagagerðinni fyrir árin 2010 og 2011 að það þyrfti að bæta þremur til fjórum starfsmönnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Matvælastofnun og Fiskistofu til að geta staðið sómasamlega að þessum undirbúningi og svarað þeim spurningum sem fyrir lægju. Því spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra eftirfarandi spurninga:

Hversu margir starfsmenn af heildarfjölda ráðuneytisins eru að vinna að þessu? Hversu mikill tími metur ráðherrann að fari í þessa vinnu? Ég vil einnig spyrja ráðherrann hvort hann telji að þessum tíma af vinnu starfsmannanna sé vel varið. Að lokum spyr ég um stöðu samningsmarkmiða í landbúnaðarkaflanum, og kannski sjávarútvegskaflanum ef ráðherra hefur tíma til að segja okkur hver sú staða er akkúrat núna. Það er orðið ákaflega brýnt að þessi markmið fari að koma fram.