140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:16]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við erum að ræða nýtt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, eins og sagt er. Það hefur verið kannski beðið eftir þessu í svolítið langan tíma því að ESA hefur eiginlega haft Ríkisútvarpið á hálfgerðu skilorði. Ýmislegt hefur ekki verið alveg eftir bókinni.

Mér finnst margt jákvætt í þessu frumvarpi. Ég hefði þó viljað ganga örlítið lengra á nokkrum sviðum. Mig langaði sérstaklega að tala um lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins, en 2. mgr. 3. gr. fjallar einmitt um það og er í nokkrum liðum. Þar hljómar 7. liðurinn svo, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að: […] Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða og frambjóðenda eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Einnig skal það bjóða stjórnmálaflokkum, frambjóðendum til almennra kosninga og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma, án endurgjalds. Ríkisútvarpið skal birta opinberlega reglur þar að lútandi.“

Ég er mjög ánægð að sjá að þetta er komið þarna inn því að fyrir síðustu alþingiskosningar stóð ég ásamt mörgu öðru góðu fólki að nýju stjórnmálaframboði sem átti enga peninga til að kynna sig en hafði einmitt fengið boðsbréf frá Ríkisútvarpinu, RÚV, um að vera með 20 mínútna þátt sem við áttum bara að skila inn. Það þáðum við með þökkum, en vegna þess að aðrir stjórnmálaflokkar sem áttu fullt af peningum vildu ekki nýta sér boðið fékk Borgarahreyfingin ekki að senda út sinn þátt. RÚV neitaði að senda hann út. Þetta er frekar ósanngjarnt ef maður stendur fyrir stjórnmálasamtök sem eiga enga peninga og þarna er hreinlega verið að mismuna, finnst mér.

Mig langaði líka að nefna eitt atriði sem er í sömu grein, í 1. mgr., og snýr að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í 6. lið er eiginlega fjallað um Ríkisútvarpið sem safn. Það má vel líta á Ríkisútvarpið sem safn. Það varðveitir og skal samkvæmt 6. lið „varðveita hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar“. Hér finnst mér kannski vanta inn aðgengi almennings að þessu öllu saman vegna þess að þetta byggist eiginlega á því hvernig RÚV hefur unnið úr efninu. Ég veit það af eigin reynslu úr fyrra starfi að sú þjónusta RÚV að afhenda efni sem á að birta annars staðar er gífurlega dýr. Mér finnst það í raun og veru ekki samrýmast því hlutverki að vera í almannaþágu ef það er í raun algjörlega óaðgengilegt vegna kostnaðar. Ég vil beina því til nefndarinnar að fólk skoði hvort hægt sé að setja þarna inn að gjaldið endurspegli raunverulegan kostnað en sé ekki geðþóttaákvörðun vegna þess að það sé svo mikið vesen að tína allt efnið til. Ég held að það sé þannig, verðskráin fari eftir því.

Mig langaði að bæta hérna við, afsakið hvað ég veð úr einu í annað, það sem ég var að tala um áðan um 7. lið í 2. mgr. 3. gr. um framboðin og framboðstímann. Þar stendur að Ríkisútvarpið skuli birta opinberlega reglur um hvernig kynning á framboðum eða frambjóðendum fari fram. Það skiptir gífurlega miklu máli hvort þetta eru 20 mínútur, hálftími, klukkutími eða tvær mínútur. Ef til vill er erfitt að setja reglur um það. Ef það hefðu til dæmis verið 20 mínútur eða klukkutími fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings þar sem var 521 frambjóðandi þá hefði náttúrlega ekkert annað verið í sjónvarpinu mjög lengi. Það er kannski erfitt að setja einhverjar skýrar reglur en ég held að það þurfi að formgera þetta aðeins meira svo að þetta taki tillit til aðstæðna en sé samt ekki bara tveggja mínútna auglýsing heldur alvörudagskrárliður.

Annað sem mig langar að fjalla um er auglýsingamál sem heita viðskiptaboð eins og í hinum stórskemmtilegu fjölmiðlalögum. Ég hefði haft áhuga á því að hér hefðu verið settar einhverjar hömlur á auglýsingar stjórnmálasamtaka þannig að þær mundu einskorðast frekar við fundi en ekki áróður. Þær eru lýðræðislega hamlandi því að þeir sem eru stærstir fá alltaf mestu peningana og geta alltaf keypt mestu auglýsingarnar og haldið áfram að vera stærstir þannig að erfitt er fyrir nýja aðila að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. En auglýsingar í ljósvakamiðlum vinna líka alltaf bara á tilfinningasviðinu, þær eru bara á yfirborðinu og eru frekar ímyndarauglýsingar en raunverulegur upplýsingamiðill. Mér hefur fundist hamlandi í allri stjórnmálaumræðu hvað hægt er að komast upp með að ausa peningum í auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi sem skauta á yfirborðinu og birta bara glansmynd í staðinn fyrir að kafa ofan í slagorðin og sjá hvað þau þýða. Ég bendi nefndinni á að skoða það.

Mig langaði líka að tala aðeins um 6. gr., um textun og táknmálstúlkun. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma.“

Með tilkomu netsins hafa náttúrlega möguleikar heyrnarskertra á aðgangi að fréttum aukist gífurlega. Engu að síður erum við kannski ekki að gera eins vel og við gætum. Það vantar til dæmis enn texta eða táknmálstúlkun á fréttir Ríkisútvarpsins. Ég var með fyrirspurn til ráðherra um þetta um daginn þar sem fram kom að fréttatímar, þótt þeir séu endursýndir seinna sama kvöld, eru ekki textaðir fyrir þá sem þyrftu á því að halda, sem ég held að geti ekki kostað svo mikið. Það er auðvitað vinna og sú vinna þarf að fara fram á kvöldin og allt það. Ég held að við getum gert betur. Auðvitað ættum við að reyna að vera hreinlega með táknmálstúlkun á lifandi efni.

Mér finnast mjög jákvæðar breytingarnar sem verða gerðar á stjórn Ríkisútvarpsins. Ég hugsa að þær verði til þess að stjórnin verði mun faglegri en hún hefur verið. Ég fagna því líka að fjölmiðlanefndin sem var sett á fót með lögum um fjölmiðla fái virkt hlutverk og almennileg tæki og geti hreinlega lagt stjórnvaldssektir á Ríkisútvarpið ef það hagar sér ekki nógu vel.

Ég held að ég hafi reifað það helsta í þessu frumvarpi. Mér finnst hundleiðinlegt að vera ekki í nefndinni sem mun taka þetta til umfjöllunar en óska henni velfarnaðar í störfum sínum.