140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma inn á örfá atriði sem ég náði ekki að fara yfir í fyrri ræðu minni og fara kannski aðeins betur yfir það sem hefur komið fram. Sumir hafa haldið því fram að Ríkisútvarpið sé sjálfstæðara með því að fá tekjustofninn beint til sín heldur en að fá hann af fjárlögum Alþingis. Þá vakna auðvitað upp spurningar um hvort þetta tryggi hlutleysið eitthvað frekar eða skilji félagið frá pólitískum ákvörðunum, því að strax kemur upp í hugann til að mynda Hæstiréttur Íslands og líka mætti nefna embætti forsetans en þær stofnanir eru fjármagnaðar með beinum fjárveitingum úr ríkissjóði.

Síðan langar mig örstutt að nefna að það hvort menn gera þetta með þessum hætti hefur í raun og veru ekkert að gera með áminningu eða ábendingar ESA um ríkisstuðninginn vegna RÚV, þetta breytir í sjálfu sér engu um það. Það er stjórnsýslulegt atriði hvernig fyrirkomulagið er og skiptir í raun mestu hversu mikið er lagt til.

Mig langar líka að gera athugasemdir við að hæstv. forsætisráðherra sé ekki við umræðuna, en ég sagði áðan að ég hefði talið æskilegt að hún væri viðstödd, verkstjórinn sjálfur, vegna þess að það kemur fram í umsögn um frumvarpið að tvö atriði í því stangist í raun á við stefnu núverandi stjórnvalda. Ég er ekki sammála þeirri niðurstöðu að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eigi að fara með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu. Mér finnst að hluturinn eigi að vera hjá fjármálaráðuneytinu eins og öll önnur hlutabréf sem ríkisvaldið heldur á. Þá heyrast alltaf þessar skýringar: Jú, en þetta er svo sérstakt og öðruvísi en allt annað. En mér finnst að fjármálaráðuneytið ætti að fara með þetta, þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki séu allir sammála mér í því. Það er hins vegar stefnumörkun núverandi stjórnvalda að hafa eignarhaldið á einni hendi þó að Ríkisútvarpið heyri auðvitað áfram undir menntamálaráðherra. Það liggur algjörlega fyrir, ég sé engan mun þar.

Síðan er maður auðvitað hugsi yfir því sem kemur fram í umsögninni og snýr að fjárframlögum til Ríkisútvarpsins þó svo að lögin og þessar breytingar eigi ekki að taka gildi fyrr en 2014, að ríkisframlagið til Ríkisútvarpsins aukist, þ.e. hverju skatturinn eigi að skila til Ríkisútvarpsins svo við förum ekki út í hártoganir um hvernig það er gert. Þetta mun í raun leiða til 700 millj. kr. aukningar á ríkisstyrknum sem er 22% hækkun. Það er auðvitað umhugsunarefni á þessum tímum þó að breytingarnar taki gildi 2014. Hæstv. menntamálaráðherra sagði í andsvari við mig áðan að stefnan væri auðvitað sú að þá verði búið að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, en ég er nú ekki viss um að það gangi eftir, því miður. Auðvitað vonast ég til þess að það geri það. En menn verða að taka þessa umræðu. Mér finnst að hér í þingsölum eigi að fara fram umræða um það hvernig hver einasta stofnun fái fjárframlög.

Það er mjög vel í lagt að verði þróunin eins og hún hefur verið, þ.e. hækkunin á nefskattinum, muni það auka útgjöldin um 700 millj. kr., bara yfir ein áramót, sem er 22% hækkun. Það hlýtur auðvitað að vekja fólk til umhugsunar um hvort það sé eðlileg forgangsröðun og það er eðlilegt að taka þá umræðu. Við höfum skorið mjög hastarlega niður í velferðarkerfinu og því verðum við auðvitað að taka efnislega umræðu um það að þessar breytingar leiði til þess að útgjöldin aukist svona mikið.

Ég ítreka enn og aftur spurningu mína til hæstv. menntamálaráðherra um þær athugasemdir sem hæstv. ráðherra gerði og sendi til RÚV og mundi vilja fá frekari skýringar á (Gripið fram í: Rétt.) því í hverju þær fólust.