140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni, þeim sem hér síðast talaði, Tryggva Þór Herbertssyni, að hægt er að fagna því að í þessu frumvarpi er verið að leggja til aðgerðir til að auðvelda fólki að lifa við þessi höft. Frumvarpið má þó ekki túlka sem svo að verið sé að létta af höftunum sem slíkum og eins og bent hefur verið á er verið að herða ýmsa þætti, bæði í eftirliti og heimildum til sektarákvæða. En ekki er þó ástæða til að gera lítið úr þeim breytingum sem hér eru. Allt það sem er til þess fallið að auðvelda fólki að búa við þetta er gott.

Hitt er, herra forseti, að sá vandi sem við búum nú við vegna haftanna er sífellt að vaxa og verða meiri. Þróunin hefur akkúrat orðið sú sem margir vísir menn og reyndir bentu á strax í upphafi að yrði. Til er í reynslusögu okkar Íslendinga forskriftin að því hvernig þetta gengur fyrir sig, hvernig höftin smáherðast, verða erfiðari og leiða að lokum til skömmtunar. Það er endapunkturinn í þessu. Þar með verða völd þeirra sem ráða skömmtuninni gríðarleg, sóun í hagkerfinu, spillingin og allt það sem fylgir því að skammta fjármagn.

Herra forseti. Ég ætla að grípa hér niður í athugasemdir við lagafrumvarpið á bls. 5 þar sem talað er um meginefni frumvarpsins. Þar er setning sem ég vil vekja athygli á af því að hún á sér margar, ef svo má segja, systursetningar frá liðinni tíð. Textinn er svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Þá er gert ráð fyrir heimild fyrir innlenda aðila til kaupa á farartæki til eigin nota innan lands. Er heimildin takmörkuð við eitt farartæki á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10 millj. kr. Til að koma í veg fyrir misnotkun eru viðskiptin jafnframt háð staðfestingu Seðlabankans.“

Það jaðrar við að mann sundli við þennan lestur, en svona er nú komið og slíkar setningar eru farnar að slæðast inn í íslensk lög og skýringar á þeim.

Þess vegna er það svo, herra forseti, að ekkert er jafnmikilvægt fyrir íslenska þjóð og að létta gjaldeyrishöftunum. Því miður virðist það ekki vera þannig þegar horft er til stefnu ríkisstjórnarinnar, til málaskrár hennar og til áherslu hennar hér á þingi að þessari skoðun sé deilt með þeim sem í forustu eru fyrir ríkisstjórninni. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið. Annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að leysa þennan vanda öðruvísi en að Ísland gangi í ESB og þannig verði höftunum lyft með aðstoð Evrópska seðlabankans o.s.frv. Hinn stjórnarflokkurinn er þeirrar skoðunar að verkefnið sé óleysanlegt. Hinn stjórnarflokkurinn, Vinstri grænir — ég vænti þess að sá flokkur deili ekki þeirri sýn Samfylkingarinnar þó að flokkurinn standi með Samfylkingunni í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en þá verður að segjast eins og er að það vantar upp á að ríkisstjórnin grípi til þeirra aðgerða sem hjálpa til við það að létta höftunum. Hvað er það, herra forseti? Jú, eitt af því sem skiptir verulega miklu máli, og er reyndar algjör grundvallarforsenda, er að traust og trúverðugleiki skapist í íslensku efnahagslífi.

Allar þær æfingar sem við höfum verið að fylgjast með að undanförnu eru til þess fallnar að draga úr slíku trausti. Má nefna, herra forseti, til dæmis sjávarútvegsmálin og þann hringlandahátt sem hefur verið nær allt kjörtímabilið. Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum hefur það vomað yfir að gerðar yrðu stórfelldar breytingar. Verið er að gera tilraunir og koma með hingað inn í sali Alþingis breytingar á sjávarútveginum sem hafa verið svo stórkarlalegar og svo illa hugsaðar og svo vanbúnar að hæstv. utanríkisráðherra hefur líkt þeim við bílslys. Slíkar breytingar og slíkur hringlandi í kringum einn helsta atvinnuveg þjóðarinnar er ekki til þess fallinn að auka traust og trúverðugleika á efnahagsstarfseminni. Að lyfta gjaldeyrishöftunum leysir þennan vanda. Það á og verður að vera fyrsta og má ég segja, herra forseti, eina forgangsmál núverandi ríkisstjórnar.

Ég er reyndar farinn að hallast að því að tómt mál sé að tala um að hægt verði í einhverri alvöru að gera tilraun til að lyfta höftunum fyrr en núverandi ríkisstjórn er farin frá.

Samtök atvinnulífsins létu fyrir skemmstu fara frá sér hvaða hugmyndir þau hafa og hvaða leiðir þau sjá til þess að lyfta höftunum. Þar er margt áhugavert og ýmsar hugmyndir sem ég held að séu mjög þess virði að skoða, meðal annars sú sem lýst er í skjölum frá samtökunum sem ég ætla að leyfa mér að vitna í, með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkissjóður gefi út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til 10–20 ára sem verði skráð á skuldabréfamörkuðum og bjóði þau erlendum eigendum ríkisskuldabréfa í krónum. Miðað er við að íslensku ríkisskuldabréfin fáist með fyrrgreindum afslætti“ — sem lýst er áður — „og 2%–5% veltuskattur verði lagður á viðskiptin.“

Þessar tillögur lögðum við sjálfstæðismenn reyndar til strax haustið 2009, að þessi möguleiki yrði skoðaður til að hægt væri að stýra útflæðinu þannig að við stæðum ekki frammi fyrir því að of mikill hluti af hengjunni rynni út. Fleiri tillögur eru hjá Samtökum atvinnulífsins sem eru vel þess virði að skoða.

Mér þykir nokkuð vanta upp á það, eins og ég sagði áðan, að sjá betur aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, nákvæmlega lið fyrir lið. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst ríkisstjórnin ýta þessu máli svolítið til Seðlabankans og segja: Það er Seðlabankinn sem á að hafa alla forustu um þetta og hvernig á að gera þetta.

Málið er bara miklu stærra en svo. Það er augljóst að okkur er ekki að takast þetta. Þegar menn horfa til stærðarinnar á hinni svokölluðu hengju, þeim peningum sem eru fastir hér inni í landinu og menn meta sem svo að mundu fara út ef þeir mættu, við erum að tala um 1 þús. milljarða, er augljóst að bara vaxtastigið eitt og þeir vextir sem þarf að greiða af þessum miklu fjármunum — það er rétt svo að afgangurinn af vöruviðskiptunum dugi fyrir því. Við munum ekki leysa þetta með einhverjum smáskammtalækningum, að greiða þessa hengju niður með einhverjum afgangi af vöruviðskiptum. Það er alveg ljóst. Meira þarf að koma til.

Þess vegna, virðulegi forseti, þó að ákveðin framför sé af þessu frumvarpi, held ég að við þurfum að taka umræðu á vettvangi þingsins um hvernig við ætlum að takast á við þetta. Ég tel reyndar að setja verði fram með endurnýjuðum hætti, ef svo má segja, áætlun um hvernig tekist verður á við gjaldeyrishöftin. Það verður ekki gert svona. Við erum ekki að leysa vandann. Vandinn er í raun og veru stærri en þessi svokallaða hengja, þessir þúsund milljarðar.

Þó að það sé rétt sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að skoða þurfi til hve langs tíma þeir peningar eru fastir, þá er rétt að hafa í huga að íslensku bankarnir eru fjármagnaðir fyrst og síðast með innlánum einstaklinga og fyrirtækja. Þess vegna er hætta á því að þeir peningar til viðbótar við hina svokölluðu snjóhengju leiti líka út úr kerfinu vegna þess að menn óttast gengisfallið, vegna þess að menn telja að betra sé að færa peningana sína í aðra mynt og njóta þá möguleikans á því að græða jafnvel á slíku gengisfalli. Þetta þurfum við líka að hafa í huga, herra forseti, að þar með er vandinn í raun og veru stærri.

Það mun fara þannig, herra forseti, að þegar við að lokum lyftum þessum gjaldeyrishöftum mun gengið falla. Það mun þýða skert lífskjör fyrir íslenska þjóð. En skerðingin sem verður á hverjum degi sem höftin eru látin standa verður þegar upp er staðið meiri ef við förum ekki hraðar í þetta. Þannig stendur það.

Vandinn í opinberri umræðu er sá að skaðinn af höftunum sést ekki svo augljóslega. Fjárfestingar sem ekki verða eru ekki eins mælanlegar og þær fjárfestingar sem orðið hafa. Það er auðvitað vandinn í þessu öllu saman, fyrir utan það sem endurspeglast í þessu máli, þessum hertu reglum sem verið er að setja, að það auðvitað eykur á spillingu og þetta býr til glæpastarfsemi. Þó að lög séu röng og vitlaus hljóta menn samt sem áður að lúta þeim, þó að lögin um gjaldeyrisviðskiptin séu lög um hlut sem er arfavitlaus í eðli sínu, þ.e. að banna mönnum að eiga viðskipti, þá verða menn að lúta þeim lögum. Því miður sjáum við að alltaf er verið að reyna að komast undan og við í þessum sal þurfum að herða og herða eftirlitið, gefa auknar heimildir fyrir Seðlabankann til að herða eftirlit sitt og alltaf verður erfiðara að fást við þetta.

Það verkefni að lyfta gjaldeyrishöftunum er svo stórt, herra forseti, og enn á ný vil ég ítreka það að að óbreyttri stjórnarstefnu mun það ekki takast. Annaðhvort þarf það að gerast að boðað verði hér til kosninga sem fyrst og ný stjórn komi að landsmálunum eða núverandi ríkisstjórn breyti um áherslur. Samfylkingin horfist í augu við það að við þurfum að leysa þetta á grundvelli krónunnar og Vinstri grænir verði tilbúnir til þess að láta af til dæmis árásum sínum á sjávarútveginn, verði tilbúnir til að endurskoða afstöðu sína til rammaáætlunar og þeirra þátta sem skipta svo miklu máli í að byggja hér upp traustan hagvöxt þannig að þeir sem á okkur horfa erlendis frá hafi trú og traust á okkar kerfi. Þá ætti að vera grundvöllur fyrir því að bæði stjórn og stjórnarandstaða taki höndum saman um þetta verkefni.

Oft er talað um það í íslensku samfélagi að menn hafi ekki trú á stjórnmálamönnum, menn hafi ekki trú á Alþingi. Í þessu máli felst stórkostlegt tækifæri fyrir Alþingi Íslendinga til að sýna þjóðinni að við stjórnmálamenn getum þegar mest á reynir staðið saman og fundið lausn á þessu mikla verkefni. Viljinn er allur til staðar í samfélaginu. Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin, allir þessir aðilar kalla á það að héðan verði veitt forusta til að leysa þetta. Forustan verður ekki til í Seðlabankanum. Seðlabankinn jafnágætur og hann er mun ekki veita þá pólitísku forustu, og á ekki að gera það, sem þarf til að leysa þetta vandamál.

Herra forseti. Dagarnir telja í þessu máli, þetta verður dýrara og dýrara. Setningin sem ég las upp áðan, um heimild fyrir innlenda aðila til kaupa á farartæki til eigin nota innan lands sem þó er takmörkuð við það að um sé að ræða eitt fyrirtæki á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10 millj. kr. segir svo stóra sögu. Ef við ætlum ekki að standa frammi fyrir því að fleiri svona setningar og jafnvel afkáralegri og ömurlegri eigi eftir að fara hér í gegn á þingskjölum þá verðum við að grípa til aðgerða. Þær verða ekki áhættulausar og þær verða ekki auðveldar, herra forseti, en þær eru óumflýjanlegar.

Þess vegna segi ég: Það þarf að breyta stjórnarstefnunni og ná miklu meiri samstöðu um það sem þarf að gera þannig að það sé pólitísk samstaða hér á þingi (Forseti hringir.) um þær aðgerðir sem þarf að grípa til af því að þær verða enn og aftur mjög erfiðar.