140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skýrsla um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

[15:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í dag var kynnt skýrsla Stefáns Ólafssonar um umfang kreppunnar og afkomu ólíkra tekjuhópa. Skýrslan er um margt áhugaverð og sérstaklega þær tölur sem þar komu fram. Þó er hægt að deila um túlkun Stefáns á þeim tölum.

Helstu niðurstöður eru þær að ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa lækkuðu um 9% milli áranna 2008 og 2010. Þær lækkuðu um 14% hjá millitekjuhópum og um 38% hjá hinum tekjuhæstu. Í skýrslunni er jafnframt að finna það mat höfundar að jöfnuður hafi aukist á Íslandi. Niðurstaða höfundarins af þessu öllu saman er að umtalsverður árangur hafi náðst í því að milda áhrif hrunsins á lágtekju- og millitekjuhópa á meðan þyngri byrðar hafi verið lagðar á þá tekjuhæstu.

Er hæstv. forsætisráðherra sammála þeirri túlkun Stefán Ólafssonar að árangurinn sé fyrst og fremst ríkisstjórninni að þakka eða er ástæðnanna kannski fremur að leita í því að fjármagnstekjur hrundu, bónusar lækkuðu, yfirvinna hvarf og meðallaun lækkuðu hjá hinum tekjumeiri? Er ánægjan með aukinn jöfnuð þá ef til vill frekar fögnuður yfir áhrifum hrunsins á þá tekjuhærri? Hvað vill hæstv. forsætisráðherra segja um það?