140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skýrsla um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þá gagnmerku skýrslu sem birt var í dag. Hún er um margt mjög athyglisverð og sýnir hvernig ríkisstjórninni hefur tekist með aðgerðum sínum að hlífa tekjulægstu hópunum og fólki með meðaltekjur. Þarna kemur meðal annars fram að sex af hverjum tíu heimilum hafa fengið lægri skattbyrði með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur farið í gegnum. Hún hefur farið í aðgerðir í skattamálum, hún hefur farið í aðgerðir að því er varðar bótakerfið, ekki síst vaxtabætur, og hefur það skilað sér í því að við sjáum að það mikla hrun sem við fórum í gegnum hefur bitnað miklu minna á lágtekjuhópunum og fólki með meðaltekjur en fólki með hærri tekjur.

Hvað er átt við þegar talað er um fólk með hærri tekjur sem búið hefur við 38% skerðingu samkvæmt skýrslunni? Það eru þau 10% þjóðarinnar sem hafa mestar tekjur, ætli við séum ekki að tala þar um tekjur upp á 7 milljónir á mánuði, fyrir utan það að þessi hópur græddi langmest í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, hann bar langmest úr býtum. Þó að einhver kjaraskerðing komi nú til þessa hóps er það fullkomlega réttlætanlegt þegar við höfum þá getað hlíft fólki með lágar tekjur og meðaltekjur. Þetta er mjög gagnmerk skýrsla sem við ræðum hér. Við náum til baka þeim ójöfnuði sem myndaðist í tíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, við erum búin að ná ójöfnuðinum niður í það sem hann var 1997 og 1998, en hann var orðinn hrikalega mikill í tíð sjálfstæðismanna. Það er afraksturinn af velferðarstjórninni, stjórn jafnaðarmanna, (Forseti hringir.) hann sýnir sig vel í þessari skýrslu.