140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti.

Fyrirlátið mér, faðir inn sæti,

fyrirlátið mér, eg vil gráta

orð og hugsun, illar görðir

auðmjúkliga ok firraz dauða.

Með leyfi forseta, tilvitnaði ég hér til kvæðisins Lilju, sem allir vildu kveðið hafa, eftir Eystein Ásgrímsson, engin núverandi Lilja en önnur Lilja.

Hver er vandinn, eða eigum við kannski að segja: Hver er vandinn í augum ríkisstjórnarinnar? Hér kom upp einn stjórnarliði og sagði að það yrði að leysa lánsveðin í næstu viku. Hversu oft höfum við heyrt stjórnarliða leggja til að málin væru núna í nefnd og það yrði að leysa þau í næstu viku eða næsta mánuði?

Það kom fram í skýrslu Seðlabankans að þær leiðir sem þó hafa verið uppi á borðinu — ríkisstjórnin segir alltaf fjölmargar leiðir en það eru þó tvær sem hafa staðið upp úr — 110%-leiðin, sem alþjóðlegu hagfræðingarnir kölluðu „lunacy“ eða tunglveiki eða klikkaðar, og vaxtabótaleiðin, hefðu bjargað samtals um 600–800 heimilum hvor eða um 1.400 heimilum. Það hefur líka komið fram að hin almenna leiðrétting hefði losað tífalt fleiri heimili úr þeim vanda sem þau voru stödd í. Auðvitað vildi Seðlabankinn ekki fara þá leið, nema hvað. Hún mundi leysa úr vanda illa settra heimila í landinu og sú stefna virðist ekki hafa verið hér uppi á borði.

Í ræðu um helgina á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sagði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að tjón af völdum aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar væri meira en af hruninu sjálfu. Þetta hefur orðið mörgum til æsinga og uppvöðslu og hávaða. En hvað kostaði það samfélagið að fara ekki leið almennra leiðréttinga? (Forseti hringir.) Hefur einhver reiknað það út, tjónið sem óréttlætið og ósanngirnin hefur valdið og þá stöðu að stór hópur heimila í landinu er enn í (Forseti hringir.) greiðsluvanda eða skuldavanda eða hvort tveggja?