140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kom inn á það í stuttu andsvari við hæstv. iðnaðarráðherra að frumvarpið væri stutt, út fellur ein málsgrein í 12. gr. laganna, og það væri í sjálfu sér jákvætt.

Það sem ég vil nota þennan tíma minn til að fara yfir kom jafnframt fram í andsvörum við hæstv. ráðherra í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Fram hefur komið að þessi starfshópur skilaði því sem þetta frumvarp byggir á, þ.e. skilaði skýrslu til iðnaðarráðherra í desember 2011, og að atvinnuveganefnd þingsins tók skýrsluna til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar og í nefndinni var mikill áhugi á að skoða málið. Á þeim tímapunkti kom fram að ef ekki stæði til af hálfu ráðuneytis og ráðherra að nýta þessa skýrslu til að koma með frumvörp kom það til tals í nefndinni, svo að það sé sagt, að reynt yrði að klára málið og leggja þá hugsanlega fram frumvarp á vegum nefndarinnar. Ég held að ég megi fullyrða að nefndin hafi verið nokkuð einhuga um það þannig að líklegt er að í þingsal sé nokkuð víðtækur stuðningur við jöfnun á húshitunarkostnaði.

Þetta frumvarp snýr að einum hluta þess, þ.e. ekki verður dreginn frá sá beini eða óbeini fjárhagslegi stuðningur ríkisins sem litlar hitaveitur geta fengið eins og var gert áður þegar sótt var um styrk. Í einstaka tilvikum þar sem er um mjög litlar og fámennar veitur að ræða dró upphæðin sem þær gátu áður aflað með einum eða öðrum hætti niður styrkinn þannig að hann varð að engu.

Ég þekki þetta mál ágætlega þar sem í sveitarfélaginu sem ég var í forsvari fyrir um nokkurra ára bil er öflug hitaveita þar sem kappkostað hefur verið og mikill metnaður verið lagður í að dreifa heitu vatni til sem flestra aðila og jafnframt úr sveitarfélaginu í næstu sveitir, jafnvel 8–10 km leið. Hitaveitan hefur m.a. notið þess kerfis sem ríkisvaldið hefur haft og hefur það nýst mjög vel. Þetta skiptir gríðarlegu máli og ég get alveg tekið undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að það væru forréttindi. Ég hef sagt að í framtíðinni muni það hreinlega verða þannig þar sem ekki er heitt vatn að ef ekki kemur til einhver annars konar sambærileg orkujöfnun til að menn geti haft heitt vatn því að það að hafa heitt vatn í ómældu magni er gríðarlega mikill kostur þá muni það stýra búsetu og atvinnuuppbyggingu í þó nokkrum mæli. Þess vegna er nauðsynlegt að skoða þetta.

Það sem kom fram í þessum tillögum og í andsvörum mínum við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson um þessa 10 aura — mig minnir að við séum allt í allt að tala um að við séum með 17 teravattstundir þannig að við erum að tala um 1.700 milljónir — að ef okkur tækist t.d. með þessari tillögu og eins þeirri tillögu sem hv. þingmanni var tíðrætt um að lengja stofnstyrkjaframlagið þannig að það gæti varað yfir lengri tíma til að mögulegt væri að fara í enn fleiri hitaveitur þá mundi þörfin á þessum 1.700 milljónum fara minnkandi á næstu árum vegna þess að okkur tækist að færa fleiri heimili yfir í þann flokk sem nyti kosta heita vatnsins og þannig mundum við smátt og smátt draga úr þessum kostnaði og það væri þjóðhagslega hagkvæmt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra þar sem í kjördæmi okkar ráðherrans, á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum, eru líklega á 6 km kafla einir 40 aðilar í dreifbýlinu fyrir utan Voga sem hafa sótt um að fá heitt vatn frá HS Orku um allnokkurt skeið en HS Orka hefur ekki treyst sér í til þess — ég hef varla trú á því að þeir hafi ekki haft bolmagn til þess að dreifa vatni þangað þegar hitaveita Flúða, sem er ekki af sömu stærðargráðu, kannski 1% af fjárhagslegu afli HS Orku, getur dreift vatni um 10 km leið til mun færri aðila en 40 — hvort hann telji þessa aðgerð gera það að verkum að HS Orka muni treysta sér til að fara í það verkefni að hitaveituvæða 40 aðila á 6 km kafla á svæði sem maður hefði haldið fyrir fram að væri hitaveituvætt og væri með heitt vatn.

Ég veit til þess að fyrir einu, tveimur árum gekk svo fram af einum þarna á svæðinu að hann tók sig til og fór að bora og fann heitt vatn en það reyndist erfitt að virkja það. Kannski hjálpar þessi aðgerð þeim aðila að nýta þá borholu.

Það sem mig langaði jafnframt til að ræða er sú tillaga sem hæstv. ráðherra minntist á að væri verið að skoða, þær eru þrjár, um að leggja 10 aura á kílóvattstundina á heildsölustigi og atvinnuveganefnd fannst skynsamlegust og jákvæðust. Það eina sem stóð út af og átti eftir að skoða þegar talað var um að leggja 10 aura á heildsölustigið var að þá mundi gjaldið leggjast á alla raforkusölu, líka stóriðjuna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að skoða það í ráðuneytinu. Er hægt stóriðjunnar vegna að leggja þessa 10 aura á vegna þeirra samninga sem hafa verið gerðir? Þetta er almenn aðgerð og það kom fram í umræðunum hér í fyrra um ETS-skattana að menn útilokuðu ekki að ef um almennan skatt eða álagningu væri að ræða þar sem öll fyrirtæki og allir sætu við sama borð gæti stóriðjan ekki skotið sér undan þeirri gjaldtöku þrátt fyrir samninga um ákveðið verð. Ef stóriðjan tæki ekki þátt mundi gjaldið náttúrlega hækka á þá sem kaupa rafmagnið en þetta gjald er ótrúlega lágt í hinu stóra samhengi.

Gæti hæstv. ráðherra tjáð sig um hvort það sé rétt munað hjá mér að ef menn bættu 10 aurum til viðbótar mundum við ná fram almennri raforkujöfnun í landinu? Þá værum við komin með sambærilegt kerfi og við treystum okkur til að hafa við jöfnun á olíugjaldi um land allt og símagjaldi. Mjólkuriðnaðurinn tekur það á sig sjálfur að jafna að menn geti keypt mjólk á sama verði. Er það ekki almennt viðmið hjá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra og markmið, eins og kom að ég held fram í andsvari við mig, ég túlkaði það að minnsta kosti þannig, að jafna raforkuverð að öllu leyti, ekki einungis til húshitunar heldur að öllu leyti? Fyrirtæki gætu þannig verið nánast hvar sem er og byggt þar upp án þess að þurfa að hafa þann varnagla á að lagaumhverfi iðnaðarráðuneytisins, eða lagasetning sem kemur frá iðnaðarráðuneytinu og Alþingi samþykkir um gjaldskrá Rariks, mundi stjórna því hvar fyrirtækin gætu verið og hvar ekki.

Í því sambandi vil ég nefna það sem kom fram í andsvari hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur við hæstv. ráðherra í sambandi við garðyrkjuna. Í kosningabaráttunni 2009 talaði ég einmitt fyrir því að það tæki fimm mínútur að lagfæra það umhverfi sem garðyrkjan byggi við, það þyrfti fyrst og fremst reglugerðarbreytingu í ráðuneytinu til að skilgreina hvað væri þéttbýli og hvernig framkvæmdin ætti að vera. Ég lagði líka fram þingsályktunartillögu og, ef ég man rétt, skráði sig næstum því helmingur þingmanna á hana í öllum flokkum, ekki síst úr ríkisstjórnarflokkunum sem vildu gjarnan vera með í því að auka hér hlut hins græna hagkerfis og efla garðyrkjuna í landinu, en þrátt fyrir það gerðist ekkert fyrr en í haust þegar iðnaðarráðuneytið breytti reglugerð sinni til samræmis við skilgreiningar Hagstofunnar á þéttbýli og hætti að miða við 200 og fór niður í 50 og tók reyndar upp ákveðið magn og fjarlægð frá spennistöð.

Í útskýringum fulltrúa ráðuneytisins sem kom fyrir iðnaðarnefnd kom skýrt fram að garðyrkjan naut góðs af þeirri breytingu sem menn gerðu vegna Grundartanga. Það þurfti að aðlaga kerfið þar, reglugerðina sem um var að ræða, til að hægt væri að byggja þar upp iðnaðarhverfi svo að fyrirtæki þar mundu njóta stórnotendataxta. Í sjálfu sér var það ekki markmið þessarar reglugerðarbreytingar að laga umhverfið fyrir garðyrkjuna enda hefur satt best að segja verið ótrúleg andstaða í stjórnkerfinu við að breyta raforkuverði og raforkuverðsumhverfi garðyrkjunnar á þessu kjörtímabili. Það er alveg ótrúlega miðað við þann yfirlýsta áhuga sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sýnt þessu og ættu auðvitað að sýna þegar talað er um græna orku og græna stóriðju.

Það var sem sagt gert en markið um magn þess sem átti að selja á þessum stað — garðyrkjan fór fram á að sett yrðu 5 megavött — voru 8 megavött. Það eru því aðeins tvö garðyrkjusvæði á landinu sem geta notið þessa í stað allflestra ef miðað hefði verið við 5 megavött og síðan 10 km frá spennistöð.

Það er rétt að hægt er að laga þetta umhverfi með lagabreytingu og breyta gjaldskrá Rariks. Ég hef verið talsmaður þess lengi. Það sem nefnt var í áðurnefndu andsvari, um hugsanlegt dreifikerfi Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps í samstarfi við garðyrkjubú á því svæði, stafar auðvitað af því að menn hafa ekki fundið þann velvilja og þann framkvæmdavilja, þó að stundum hafi kannski fundist velvilji en aldrei framkvæmdavilji, til þess að fara af stað í að lagfæra þessar aðstæður, hvort sem er með reglugerð eða lagabreytingu.

Það er kannski rétt að ítreka þá spurningu sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur og bæta jafnvel við spurningalistann sem ráðherra gæti svarað. Verður það skoðað, af því að þetta snýst ekki um að menn ætli að græða á þessu, að setja upp svona kerfi á þessu svæði sem mundi ná til um 80% garðyrkjunnar í landinu, þ.e. ylræktarinnar? Þá mundi þessi dreifiveita borga sig upp á fimm árum, sem er alveg ótrúlegt.

Atvinnuveganefnd kom inn í þetta líka eins og það mál sem ég nefndi áðan. Ég veit satt best að segja ekki hver staðan er í því. Það væri gaman ef hæstv. ráðherra veit hver staðan er, þar sem aðilar reiknuðu út kostnaðarmat, kostina og gallana, við það að setja upp eigið dreifikerfi annars vegar og hins vegar forsendur Rariks, að fara yfir allar forsendur og athuga hvort þetta standist. Ef þetta stenst, sem mér finnst allar líkur á, er ákaflega áhugaverður kostur hvort þarna sé komin leið til að byggja upp dreifikerfi víða um land. Ég held að það mætti skoða það og vil koma þeirri hugmynd á framfæri við ráðherra og ráðuneytið að þarna væri hægt að setja upp samvinnufyrirtæki í anda þess sem er í Bandaríkjunum þar sem um 42% raforkunnar er dreift í gegnum „nonprofit“ samvinnufyrirtæki í öllu dreifbýli. Þá mætti hugsa sér að slík dreifikerfi yrðu einfaldlega sett upp á landinu vegna þess að gjaldskrá Rariks endurspeglar ekki þörf fyrir atvinnuuppbyggingu og raunverulega notkun, ekki síst í garðyrkju en við gætum líka verið að tala um fiskeldisstöðvar, loðnubræðslur og fleiri atvinnutækifæri á Íslandi sem nýta íslenskt hráefni, íslenska raforku (Forseti hringir.) til að framleiða gjaldeyri sem okkur veitir ekki af.

(Forseti (ÞBack): Forseti minnir hv. þingmann og þingmenn á að nota íslenska tungu og þýða erlend heiti eða orðskýringar yfir á íslensku.)