140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni nýja skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands, sem kynnt var á dögunum, um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör almennings í landinu. Skýrslan sýnir svart á hvítu að íslenska leiðin út úr kreppunni hefur virkað til að verja velferðina og auka jöfnuð í samfélaginu. (Gripið fram í.) Skýrslan sýnir einnig að árangurinn er betri en hjá flestum þjóðum í kringum okkur þrátt fyrir fordæmalaust hrun lífskjaranna haustið 2008.

Íslenska leiðin út úr kreppunni fólst meðal annars í eftirtöldum fjórum þáttum: Í fyrsta lagi að hlífa lægri tekjuhópum við lífskjaraskerðingu. Í öðru lagi að jafna kjörin með skattkerfisbreytingum. Í þriðja lagi að vernda störfin og vinna gegn atvinnuleysi og í fjórða lagi að beita velferðarkerfinu til að verja lífskjörin.

Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að vinda ofan af þeirri óheillaþróun sem hófst með einkavæðingu bankanna þar sem ójöfnuður tekjuskiptingar hvorki meira né minna en tvöfaldaðist í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samanburðurinn við ofþensluáratuginn fram að hruni er sláandi. Í skýrslunni kemur fram að fólkið með hæstu tekjurnar í samfélaginu, efsta eina prósent tekjustigans, naut sérstakrar verndar gegn of hárri skattbyrði í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta voru einstaklingar með 24 millj. kr. í heildartekjur á mánuði að meðaltali. Sá hópur borgaði 13% af heildartekjum sínum í skatt meðan skattbyrði fólks með meðaltekjur var um og yfir 20%. Það er reyndar magnað að þessi ofurtekjuhópur var með lægri skattbyrði en sjö af hverjum tíu fjölskyldum í landinu.

Þessari þróun hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur snúið við, góðu heilli. Nú ber hátekjufólkið, sem vera ber, þyngstar byrðar en lág- og millitekjufólk léttari byrðar en fyrir hrun. Skattbyrðin hefur lækkað hjá fjölskyldum með meðaltekjur og þar fyrir neðan í tíð núverandi ríkisstjórnar og það er reyndar ekki fyrr en fjölskyldutekjur eru komnar yfir 1 millj. kr. á mánuði sem skattbyrðin fer að þyngjast svo einhverju nemur. Þessi þróun er þó ekkert náttúrulögmál. Hún er afleiðing af pólitískri forgangsröðun og í fullu samræmi (Forseti hringir.) við stefnu jafnaðarmanna og félagshyggjufólks sem er sú sýn sem hefur myndað grundvöll norrænar velferðar í áratugi.