140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni. Ég leysti af í þessari nefnd og náði allri meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þessu máli. Það var í nefndinni í tvo og hálfan sólarhring, frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þuríði Backman að mikilvægt sé að mál fái þinglega meðferð. Hluti af því er að senda mál út til umsagnar. Það var ekki gert í þessu tilfelli. Þeir gestir sem komu fyrir nefndina voru langsamlega flestir á móti málinu en fengu ekki tækifæri til að senda inn umsögn vegna þess að málið var ekki sent út til umsagnar.

Ég vil beina því til frú forseta að fara yfir með forustu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvað felst í þinglegri meðferð. Ég hef skilið það svo að það felist meðal annars í því að mál fari út til umsagnar þar sem hagsmunaaðilum, félagasamtökum og einstaklingum gefst færi á því að gera athugasemdir við þingsályktunartillögur og lagafrumvörp. (Forseti hringir.) Ég vil beina því til frú forseta að taka forustu þessarar nefndar í smákennslustund eða leiðrétta þann sem hér stendur um hvað felst í orðunum þingleg meðferð.