140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, framsögumanni málsins, hennar ræðu.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hún segir að menn eigi ekki að vera undrandi, þetta hafi legið fyrir, í fyrsta lagi: Finnst henni það ekki fullseint að koma með þetta þegar þrjú ár eru liðin af stjórnartíð ríkisstjórnarinnar og bara eitt ár eftir og þar að auki á þetta ekki að taka gildi fyrr en í haust? Er þetta ekki fullseint?

Í öðru lagi: Var lagður fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kostnaður og sparnaður af þessum ráðstöfunum?

Í þriðja lagi: Var teiknað upp nýtt Stjórnarráð í meðförum nefndarinnar um þetta? Vita menn hvar einstakar stofnanir eiga að vera, t.d. Hagstofan? Og með auðlindaráðuneytið — hvar telur hún að til dæmis Hafrannsóknastofnun, Orkustofnun og Landsvirkjun eigi að vera? Þarna eru jú þessar tvær meginauðlindir sem við eigum, sjávarútvegurinn og orkan. Telur hv. þingmaður að þetta eigi að heyra undir auðlindaráðuneytið eða atvinnuvegaráðuneytið?