140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það sé nokkuð sammerkt fyrri umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir að mat þeirra sem tóku til máls um hana sé í grófum dráttum hið sama og hv. þingmaður setur fram, þ.e. að samstarfið við þær stofnanir og atvinnugreinar sem hér um ræðir sé mjög takmarkað og hefði betur verið lagt í vandaðri undirbúning að þeirri sameiningu sem hér er að stefnt þótt ekki væri nema til þess að menn hefðu sama skilning á því hvað fyrir lægi.

Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann hafi upplýsingar um það með hvaða hætti þetta samráð hefur átt sér stað ef það hefur þá átt sér stað. Við heyrum að þetta séu frekar fyrirmæli að ofan en að þetta sé sjálfsprottið innan úr atvinnugreinunum eða stofnununum sjálfum. Getur hv. þingmaður staðfest það með einhverjum hætti, (Forseti hringir.) hefur hann heyrt ávæning af slíkri umræðu?