140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:28]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er skemmst frá að segja að það kerfi sem hefur dugað best á norðurslóðum, hvort sem er í Færeyjum, Grænlandi eða annars staðar, er kerfi sem byggir á reynslu. Reynslan hefur verið ólygnust í öllu er lýtur að framvindu samfélagsins. Til að mynda er gott dæmi reynslan sem íslenskir fiskvinnslumenn, sjómenn og útgerðarmenn hafa skilað með því að leggjast á eitt um að selja dýrustu vörur úr sjávarútvegi á dýrustu mörkuðum. Þetta hefur skeð núna á 30 árum og hefur valdið byltingu í tekjuöflun íslensku þjóðarinnar.

Þetta kerfi er ekki á Mið-Evrópusvæðinu, ekki einu sinni á breska svæðinu sem er mjög íhaldssamt og bundið við ákveðnar hefðir og svigrúm er lítið til að hreyfa sig. Þetta kerfi hefur skilað sér svolítið í Japan og hjá austrænum fiskveiðiþjóðum, sérstaklega Japönum sem hafa kunnað að umgangast hvert kíló af fiski eins og gullmola. Það hafa íslenskir sjómenn og fiskvinnslumenn gert einnig á mjög glæsilegan og spennandi hátt.

En þetta snýst ekki um það. Þetta mál, þessi hringavitleysa, þessi langavitleysa eins og gamalt vinsælt spil var (Forseti hringir.) lengi á Íslandi, skilar ekki neinum árangri.