140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:30]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að hér sjáum við enn einu sinni birtingarmynd þess ráðherrakapals sem við höfum oft séð núverandi hæstv. ríkisstjórn bögglast við að leggja og leysa. Í rauninni tel ég að þetta mál snúist um það hver eigi að vera ráðherra, hvað hann eigi að ráða miklu. Með öðrum orðum er þetta leið til að halda í sem flesta þræði framkvæmdarvaldsins.

Ríkisstjórnin hefur greinilega kosið að nota sín hefðbundnu vinnubrögð í þessu máli sem og öðrum, þ.e. leið Þorgeirs Hávarssonar, að kjósa ekki frið ef ófriður er í boði. Það er ljóst að gríðarleg andstaða er í þinginu á öllum stigum og hjá flestum hagsmunaaðilum eins og kemur fram í umsögnum um þetta frumvarp og önnur svipuð sem á undan hafa komið.

Þegar farið var fram með þessar hugmyndir í upphafi vöktu þær gríðarlega reiði meðal hagsmunaaðila. Þeir mótmæltu og spyrntu mjög við. Það er þekkt að á ákveðnu tímabili þessa máls vildi hæstv. forsætisráðherra fá vald til að skipa málum hjá framkvæmdarvaldinu eins og henni hentaði. Við því voru að sjálfsögðu hörð viðbrögð og viðspyrna og ríkisstjórnin varð að gefa eftir.

Svo meðtók hæstv. ríkisstjórn fegins hendi ályktun frá Evrópuþinginu 14. mars sl. þar sem því var fagnað að tekist hafði að losna við þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi hv. þm. Jón Bjarnason. Það var þá kannski tilgangurinn með öllum þessum breytingum.

Hér er verið að ræða breytingar á ansi mörgum ráðuneytum. Í ágætri skýrslu sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, framsögumaður þessa máls, veifaði í dag eru reifaðar ýmsar breytingar sem hafa verið gerðar á ráðuneytum í gegnum tíðina. Það er áhugavert að skoða þær breytingar sem hafa verið gerðar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti undanfarin ár og áratugi. Fram kemur í skýrslunni að 1947 voru þessir málaflokkar, sjávarútvegur og landbúnaður, undir svokölluðu atvinnumálaráðuneyti á þeim tíma. 1970 var tekin ákvörðun um að splitta þessu upp og til urðu sjávarútvegsráðuneyti annars vegar og landbúnaðarráðuneyti hins vegar. 2008 var svo farið í að sameina þessa tvo málaflokka og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti varð til.

Við þá sameiningu urðu þó nokkrar breytingar á stofnanastrúktúr þessara ráðuneyta. Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli, Háskólinn á Hólum, voru færðir við þessa breytingu til menntamálaráðuneytisins og Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins til umhverfisráðuneytisins. Margir gagnrýndu þetta á sínum tíma.

Margir eru á þeirri skoðun enn í dag að það hafi verið óskynsamlegt færa landgræðsluna og skógræktina yfir til umhverfisráðuneytisins þar sem hluti af verkefnum þeirra, eins og verkefnið Bændur græða landið og hið svokallaða Héraðsskógaverkefni, voru skilin eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ákveðin óskilvirkni fólst í því.

Enn fremur telja margir að Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum hafi fjarlægst mjög atvinnuvegina við það að færast yfir til menntamálaráðuneytisins. Við vitum að fjárhagserfiðleikar þessara skóla eru mjög miklir og hefur skort á skilning á því hingað til.

Undanfarin missiri hefur borið á því að mönnum innan landbúnaðarins og hagsmunasamtökum bænda hafi fundist mjög takmarkaður og lítill skilningur á málefnum landbúnaðar og sjávarútvegs við lagasetningu. Það þekkjum við mjög vel á því hvernig þingmenn og ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar tala niður þessa atvinnuvegi þjóðarinnar.

Í þeirri ályktun sem rædd er í dag er lögð til frekari sameining á ráðuneytum, þ.e. að iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti verði að einu svokölluðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og svo verði til fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Í þeirri broskarlaskýrslu sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir veifaði í dag er þó nokkuð fjallað um afstöðu hagsmunasamtaka til þessara breytinga. Óhætt er að segja hvað varðar sameiningu ráðuneyta í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að fjölmargir fýlukarlar séu í broskarlaskýrslunni. Þar má nefna sem dæmi athugasemdir frá Landssambandi veiðifélaga, Samtökum fiskvinnslustöðva, Landssambandi smábátaeigenda, LÍÚ og Bændasamtökum Íslands. Rök þeirra gegn þessari sameiningu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eru fjölmörg og þó að hér verði tæpt á örfáum er ljóst að þar eru gagnstæðir hagsmunir hvað varðar til dæmis verslun annars vegar og landbúnað hins vegar. Það er þekkt að oft hafa þessar kjarnagreinar tekist á. Við þekkjum umræðu verslunarinnar um innflutning á landbúnaðarafurðum og við þekkjum að sjálfsögðu viðspyrnu hagsmunasamtaka landbúnaðarins gegn því.

Talað er um að kraftar séu nú dreifðir á æðstu stöðum. Það verður of mikið á borði ráðherrans, hann mun eiga erfitt með að hafa yfirsýn og verra aðgengi verður að stjórnvöldum með þessum breytingum. Svo er áhugavert að margir telja að þetta sé ekki forgangsverkefni og verður hér með tekið undir það.

Þó nokkur andstaða kemur fram við nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er að sjálfsögðu sá stóri þáttur að ákveðið ójafnvægi myndast milli nýtingar- og verndunarsjónarmiða. Þeir sem hafa viljað vernda auðlindir okkar og þeir sem vilja nýta þær með sjálfbærum hætti hafa engan veginn verið sammála. Það gæti því reynst erfitt í nýju ráðuneyti að sameina þessi sjónarmið.

Svo hafa menn einnig nefnt að rannsóknir séu ekki í tengslum við atvinnuvegina og óttast það.

Það kom fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, framsögumanni þessa máls, að markmiðið með þessum breytingum væri ekki að spara. Þess vegna er eðlilegt að spyrja: Hver er tilgangurinn með þessum aðgerðum núna? Hvað liggur svona á? Á þetta að leysa einhver vandamál? Eru einhverjir einstaklingar innan ráðherraliðsins sem væri gott að koma út í hinn hefðbundna þingsal eða hvað býr eiginlega undir?

Ég velti því mikið fyrir mér að í þessum tillögum skuli vera lagt til að fækka ráðuneytum og flytja verkefni saman og færa undirstofnanir milli ráðuneyta, en svo er kveðið á um að hægt sé að vera með aðstoðarráðherra. Það er því ekki endilega verið að fækka ráðherrum. Þetta er alveg nýtt í þessu máli og maður veltir fyrir sér hvað menn ætli sér með því að þjappa framkvæmdarvaldinu saman í svo stór ráðuneyti að einn ráðherra komist ekki yfir verkefnin og þurfi aðstoðarráðherra.

Nú eru þrjú ár liðin frá því að núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Það er ekki meira en eitt ár þangað til ný ríkisstjórn tekur við. Hefði samstaða ekki verið nauðsynleg í þessu máli í ljósi þess að hér hafa í gegnum tíðina ýmsir flokkar verið í ríkisstjórn? Oft hafa verið gerðar breytingar á ráðuneytum og ég held að í þessu máli sem og öðrum hafi verið nauðsynlegt að hafa samstöðu því að á öllum stigum er nauðsynlegt að menn séu sammála um það hvernig haga skuli framkvæmdarvaldinu, að það sé ekki í höndum ríkisstjórnar sem er um það bil að fara frá völdum að gera stórar strúktúrbreytingar. Svona lagað verður alltaf að vera unnið í samstarfi allra flokka á Alþingi, alls þingsins.

Ég velti einu fyrir mér í þessu máli. Það er fjarvera Hreyfingarinnar. Nú skrifar hv. þm. Margrét Tryggvadóttir undir nefndarálit meiri hlutans fyrir þessu máli og við sjáum að í auknum mæli eru þingmenn Hreyfingarinnar meðflutningsmenn meiri hlutans. (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér hvort þingmenn Hreyfingarinnar hafi engan áhuga á þessum málaflokki, hvernig framkvæmdarvaldinu skuli vera skipað. Ég velti því líka fyrir mér hvort þeir hafi einfaldlega selt ríkisstjórninni sál sína í skiptum fyrir kannski framgang einhverra mála sem þeir leggja höfuðáherslu á.

Í lokin væri kannski forvitnilegt að spyrja hv. þingmenn Hreyfingarinnar, sem eru því miður ekki hér, hafa ekki sett sig á mælendaskrá í þessari umræðu í dag og tóku ekki til máls við fyrri umræðu þessa máls, hvort þau telji sig hafa verið kosin til að styðja samþjöppun framkvæmdarvaldsins til örfárra aðila innan ríkisstjórnarinnar. Mér þykir miður að hafa ekki neinn þingmann Hreyfingarinnar hér, en fjarvera þeirra er sjálfsagt lögmat.

Ég vil bara segja í lokin það sem ég sagði í upphafi: Mér finnst synd að menn skuli kjósa að fara með ófriði í stað friðar því að það er gríðarleg andstaða við þessar breytingar. Mér finnst þetta vera eitt dæmi um það að ríkisstjórnin virðist ætla að keyra í gegn mál sem er mjög umdeilt tæpu ári áður en hún fer frá völdum, helst fyrr.