140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór víða, bæði yfir sögulega þróun í Stjórnarráðinu og þá gagnrýni sem komið hefur fram frá ýmsum aðilum í tengslum við þetta frumvarp. Ég er sammála hv. þingmanni, og flestum þeim sem hér hafa talað, að maður skilur ekki alveg af hverju er verið að standa í þessu, þetta er alveg á skjön við allt það sem hv. stjórnarliðar hafa sagt fram til þessa, þetta er á skjön við það sem þeir segja í sínum eigin stjórnarsáttmála o.s.frv.

Þetta er hins vegar ágætt tækifæri til að ræða þessi mál almennt og ég hef áhuga á að vita hvernig samskiptin við Stjórnarráðið koma hv. þingmanni fyrir sjónir, þó ekki sem þingmanni heldur sem forustumanni í félagasamtökum sem ég efast ekki um að þurfi að eiga mikil samskipti við Stjórnarráðið, og þá væntanlega sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ég er þeirrar skoðunar að margt megi bæta í Stjórnarráðinu og í stjórnsýslunni. Ég tel til dæmis skynsamlegt að einstaklingar séu ekki í sama starfinu lengi, bæði þeirra sjálfra vegna og þjónustunnar vegna. Ég held að átta ár væri alveg hámark hvað það varðar. Ég tel að það kalli fram betri þjónustu og miklu meiri starfsánægju, ég held að engum sé hollt að eiga við sömu hlutina svo lengi.

Ég vildi gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þessa hluti varðar.