140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:01]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sér hver maður hversu málefnalegt þetta svar hv. þingmanns var. Það að hafa farið um landið og rætt við bændur og fengið að heyra þá tilfinningu þeirra að ráðherrar og ríkisstjórnin væru að tala niður stétt þeirra. Það verður þá að þeirri fullyrðingu hér í ræðustól hjá hv. þingmanni að ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans séu iðulega að tala niður landbúnað og sjávarútveg. Það að hafa skoðanir á lögum um stjórn fiskveiða og vilja gera breytingar á þeim sé þá árás á stéttina.

Það er af og frá og hv. þingmaður veit betur, ég er sannfærður um það. Við eigum ekki að ræða málið á þessum nótum og gera öðrum upp skoðanir á heilum og hálfum starfsstéttum og að þeir séu að tala út frá einhverri andúð. Þetta eru mál sem varða alla landsmenn og öllum landsmönnum er frjálst að hafa hvaða skoðanir sem þeim sýnist á landbúnaði og sjávarútvegi og tala út frá þeim án þess að þeim sé gert það upp að það sé með einhverjum niðrandi hætti eða gert af einhverri andúð.